- Auglýsing -

Molakaffi: Sandra, Arnar Birkir, Sveinbjörn, Anton, Aron, Haukur, Hannes Jón

Sandra Erlingsdóttir landsliðskona og leikmaður EH Aalborg. Mynd/EH Aalborg Support
  • Sandra Erlingsdóttir og samherjar hennar í EH Aalborg unnu stórsigur á Rødovre HK á heimavelli í gær í 1. deildinni í Danmörku, 41:25. Álaborgarliðið var níu mörkum yfir í hálfleik, 18:9. Sandra skoraði tvö mörk í leiknum en hún lék allan leikinn á miðjunni í sókninni og stýrði leiknum af mikilli röggsemi. EH Aalborg er komið upp í fimmta sæti með 10 stig eftir níu leiki. TMS Ringsted er efst með 16 stig.
  • Arnar Birkir Hálfdánsson átti afar góðan leik þegar EHV Aue vann Ferndorf á heimavelli í æsispennandi leik, 30:29, í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gær. Arnar Birkir skoraði sex mörk og var með fullkomna nýtingu. Áki Egilsnes kom lítið við sögu hjá Aue að þessu sinni. Þeir sem skráðu tölfræði leiksins virðast hafa verið utan við sig. Ekkert varið skot er skráð á markverði Aue í leiknum sem er harla ósennilegt. Þar af leiðandi liggur ekki fyrir hvort Sveinbjörn Pétursson stóð í marki Aue í leiknum eða ekki. EHV Aue situr í 13. sæti af 20 liðum deildarinnar með átta stig þegar tíu leiki eru að baki.
  • Anton Rúnarsson skoraði fjögur mörk í fjórum skotum og átti tvær stoðsendingar þegar lið hans TV Emsdetten vann Grosswallstadt, 31:27, í þýsku 2. deildinni í gær. Leikmenn Grosswallstadt voru að rísa úr koju eftir einangrun í kjölfar þess að smit kórónuveiru knúði dyra í herbúðunum. Emsdetten er í 11. sæti með níu stig eftir 10 leiki.
  • Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk í sex skotum og átti fimm stoðsendingar þegar Aalborg Håndbold vann stórsigur á Holstebro, 36:27, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Álaborgarliðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14. Aalborg er í öðru sæti eftir sem áður með 18 stig eftir 10 leiki en Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG eru efstir með 20 stig. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold sem er danskur meistari í handknattleik karla.
  • Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk og var einu sinni vísað af leikvelli er hann mætti á ný til leiks með Vive Kielce eftir meiðsli í gær er liðið vann Stal Mielec, 35:28, á heimavelli i pólsku úrvalsdeildinni. Sigvaldi Björn Guðjónsson var ekki með sökum meiðsla. Vive Kielce er efst í deildinni með 27 stig eftir níu leiki eins og Wisla Plock.
  • Hannes Jón Jónsson og lærisveinar hans í austurríska meistaraliðinu Alpla Hard unnu Füchse, 29:20, á útivelli í efstu deild austurríska karlahandknattleiksins í gær. Alpla Hard er áfram í þriðja sæti með 15 stig eftir tíu leiki. Nágrannaliðið Bregenz og Aon Fivers eru tveimur stigum á undan.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -