Molakaffi: Staðfest hjá Hannesi en sterkur grunur hjá Steinunni, sigur hjá Arnóri, veiran herjar á stórlið

Hannes Höskuldsson, leikmaður Selfoss, á fullri ferð í leik gegn Þór fyrr á leiktíðinni. Mynd/Selfoss/SÁ
  • Handknattleiksmaðurinn ungi hjá Selfossi, Hannes Höskuldsson, sleit krossband í viðureign Selfoss og Aftureldingar í Olísdeild karla á dögunum. Hann verður þar með frá keppni út þetta ár ef að líkum lætur. Hannes hefur skorað 17 mörk í Olísdeildinni í 12 leikjum. Hann hefur einnig leikið af og til með ungmennaliði Selfoss í Grill 66-deildinni og skoraði 25 mörk í fimm leikjum.
  • Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, sagði í samtali við Vísir.is í gær að hún telji nánast víst að hún hafi slitið krossband í viðureign Íslands og Norður-Makedóníu í forkeppni HM í handknattleik í Skopje á síðasta föstudag. Steinunn kom heim í fyrradag með samherjum sínum í landsliðinu. Hún er í sóttkví en á tíma eftir næstu helgi þar sem hún fer í ítarlega skoðun.
  • Arnór Atlason og félagar hans í danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold unnu Ringsted, 33:28, í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld í næst síðasta leik liðanna í deildinni. Aalborg endurheimti þar með efsta sætideildinnar á nýjan leik. GOG er í öðru sæti en á leik til góða á Aalborg en GOG lék í Evrópudeildinni í gærkvöld. 
  • Stórlið PSG í Frakklandi er nýjasta fórnarlamb kórónuveirunnar í Frakklandi. Allir leikmenn liðsins og starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví eftir að smit greindist hjá nokkrum leikmönnum liðsins. Af þeim sökum var viðureign liðsins við Chambéry í gærkvöld slegið á frest og sömu sögu er að segja af fyrirhuguðum leik gegn Toulouse á föstudagskvöldið.
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -