Molakaffi: Teitur Örn og Ólafur, Sigvaldi og Jensen, aftur frestað og sigur í Sviss

Teitur Örn Einarsson, leikur ekki fleiri leiki fyrir IFK Kristianstad. Ljósmynd/IFK Kristianstad
  • Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk í sjö skotum og Ólafur Andrés Guðmundsson eitt í tveimur skotum þegar lið þeirra, IFK Kristianstad vann Helsingborg, 27:23, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Kristianstad situr í sjöunda sæti deildarinnar. 
  • Bjarni Ófeigur Valdimarsson er enn fjarri góðu gamni í liði Skövde. Hann var ekki með þegar liðið gerði jafntefli við Önnereds, 20:20, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik á útivelli gær. Skövde er í fimmta sæti. 
  • Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk í fjórum skotum þegar Vive Kielce vann Azoty Puławy, 33:29, í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Leikið var á heimavelli Pulawy sem er í öðru sæti deildarinnar. Kielce er efst sem fyrr.
  • Jesper Jensen mun uppfylla samning sinn sem þjálfari danska meistaraliðsins Esbjerg til ársins 2022 og um leið vera aðalþjálfari danska kvennalandsliðsins. Danska handknattleikssambandið hefur lagt áherslu á að landsliðsþjálfari sinni ekki öðru starfi samhliða vinnu sinni fyrir sambandið. 
  • Gerð var undantekning við ráðningu Nikolaj Jacobsen með karlalandsliðið og nú hefur verið ákveðið að Jensen verði ekki settur stóllinn fyrir dyrnar. Hann tók við þjálfun kvennlandsliðsins  fyrir um ári. Undir hans stjórn þótti danska landsliðið sýna batamerki á EM sem haldið var í desember. Jafnvel var búist við að pressað yrði á Jensen að hætta með Esbjerg í vor en af því verður ekki. 
  • Í annað sinn á keppnistímabilinu hefur orðið að fresta viðureign dönsku meistaranna Aalborg Håndbold og þýsku Evrópumeistarana THW Kiel vegna kórónuveirusmita innan þýska liðsins. Til stóð að leikurinn færi fram annað kvöld. Fyrir áramót var leik liðanna einnig frestað af sömu ástæðu. 
  • Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar í Kadetten Schaffhausen unnu TV Endingen, 38:19, á heimavelli í efstu deild svissneska handboltans í karlaflokki. Kadetten er í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig eftir 18 leiki. Pfadi Winterthur er efst með 32 stig en hefur leikið tveimur leikjum fleira en Aðalsteinn og félagar. 
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -