- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Wester kveður Óðinsvé, eftirmaður Stefáns fannst í Sviss, Ziercke axlaði sín skinn, Lagergren fer ekki

Tess Wester markvörður Odense håndbold og hollenska landsliðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Tess Wester, landsliðsmarkvörður heimsmeistara Hollands í handknattleik kvenna, yfirgefur Odense Håndbold við lok leiktíðar í vor eftir að hafa leikið með liðinu í þrjú ár. Ekki hefur verið gefið upp hvert hin 27 ára gamla landsliðskona hyggst halda en væntanlega skýrist það á allra næstu dögum enda um að ræða einn besta markvörð heims í kvennahandknattleik. 
  • Austurríski hornamaðurinn Sebastian Frimmel hefur samið við ungverska stórliðið Pick Szeged til tveggja ára og tekur samningurinn gildi í sumar. Frimmel er nú lærisveinn Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Kadetten Schaffhausen. Frimmel er ætlað að koma í stað Stefáns Rafns Sigurmannssonar sem gerði samkomulag um starfslok sín hjá Pick Szeged á dögunum vegna þrálátra meiðsla í ilinni.
  • Aaron Ziercke sem þjálfað hefur Emsdetten síðan í febrúar var látinn taka hatt sinn og staf í gær. Liðið rekur lestina í þýsku 2. deildinni og hefur hreinlega verið heillum horfið. Hollendingurinn Peter Portengen tekur við þjálfun liðsins. Portengen þjálfaði m.a. hollenska kvennalandsliðið frá 2009 til 2016. 
  • Nokkrir Íslendingar hafa leikið með Emsdetten á síðustu árum og má þar m.a. nefna Anton Rúnarsson, Erni Hrafn Arnarson, Fannar Þór Friðgeirsson og Odd Gretarsson. Ekki eru mörg á síðan Emsdetten gerði stuttan stans í efstu deild en lengi vel hefur það verið með betri liðum 2. deildar en nú er Snorrabúð orðinn stekkur. 
  • Albin Lagergren varð að bakka út úr sænska landsliðinu í gær eftir að hafa greinst smitaður af kórónuveirunni. Hann fer þar með ekki á HM í Egyptalandi. Í fyrradag reyndist Anton Lindskog  vera smitaður. Sænska landsliðið er í einangrun og Glenn Solberg landsliðsþjálfari bíður og vonar að fleiri leikmenn reynist ekki jákvæðir af veirunni áður en sænska landsliðið fer til Kairó á þriðjudaginn. Jack Thurin samherji Bjarna Ófeigs Valdimarssonar hjá Skövde var kallaður inn í sænska hópinn í stað Lagergren.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -