Myndskeið: Ævintýralegur endasprettur tryggði Szeged meistaratitilinn

Hinn snjalli þjálfari ungverska meistaraliðsins Pick Szeged, Juan Carlos Pastor. Mynd/EPA

Pick Szeged varð ungverskur meistari í handknattleik karla annað árið í röð í gærkvöld eftir ævintýralegan eins marks sigur, 30:29, á Veszprém á heimavelli Veszprém í síðari viðureign liðanna. Liðin voru með jafna markatölu, 58:58, eftir tvo úrslitaleiki en Szeged varð meistari á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.


Miklós Rosta skoraði sigurmarkið mikilvæga fyrir Szeged á síðustu sekúndu leiksins að loknu hraðaupphlaupi og frábærri sendingu frá Slóvenanum Dean Bombac.


Þrettán sekúndum áður var dæmdur ruðningur á leikmenn Veszprém í lokasókn liðsins. Gríðarlegur fögnuðu braust út eftir sigurinn í gær enda hefur lengi andað köldu á milli stuðningsmanna liðanna sem hafa borið höfuð og herðar yfir önnur handknattleikslið í karlaflokki í Ungverjalandi.


Síðustu sekúndur leiksins og sigurmarkið má sjá hér fyrir neðan en upptakan er fengin af Twittersíðu Danans Rasmus Boysen.

Þar með hefur Pick Szeged orðið meistari í fimm skipti í Ungverjalandi, 1996, 2007, 2018, 2021 og 2022. Veszprém varð síðast meistari 2019 en enginn var krýndur meistari tímabilið 2020 enda varð það endasleppt vegna kórónuveirunnar.


Stefán Rafn Sigurmannsson, leikmaður Hauka, varð meistari með Pick Szeged árið 2018.

Stefán Rafn annar f.v. með samherjum sínum fagnar meistaratitli Pick Szeged 2018. Mynd/aðsend
a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -