Myndskeið: Þrumuskot Teits Arnar í Barcelona

Teitur Örn Einarsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Stórskyttan Teitur Örn Einarsson heldur áfram að þenja út netsmöskvana á handknattleiksvöllum Evrópu. Hann skoraði til að mynda þrjú mörk fyrir Flensburg þegar liðið tapaði fyrir Barcelona í síðari viðureign liðanna í Meistaradeild Evrópu á fimmtudagskvöld. Flensburg tapaði leiknum en átti í fullu tré við spænsku meistarana nær allan leikinn.


Hér fyrir neðan má sjá myndskeið af einu markanna en í kjölfar þess sló þögn á áhorfendur í Palau Blaugrana-íþróttahöll Barcelona. Einnig er annað myndskeið neðst í fréttinni þar sem sjá má stutta samantekt úr leiknum en þar er að finna tvö marka Selfyssingsins skotharða.


Teitur Örn tekur í dag þátt í 106. grannaslag Flensburg og Kiel í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Viðureignir liðanna eru ævinlega einn af hápunktum keppnistímabilsins í Þýskalandi. Leikið verður í Flens-Arena í Flensburg. Tveimur stigum skakkar á liðunum, Kiel í hag, þegar þau eiga fimm leiki eftir. Kiel er í öðru sæti deildarinnar en Flensburg í fjórða.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -