- Auglýsing -
- Auglýsing -

Náðum ekki að vera kaldar í hausnum

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir t.v. og Birna Berg Haraldsdóttir, samherjar hjá ÍBV og landsliðinu. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Þetta var ekki fallegur handboltaleikur,  allavegana ekki af okkar hálfu. Við vorum yfir eiginlega allan leikinn og því líður mér eins og við höfum tapað,“ sagði landsliðskonan Birna Berg Haraldsdóttir, leikmaður ÍBV, þegar handbolti.is sóttist viðbragða hjá henni eftir jafntefli ÍBV og KA/Þórs, 21:21, í Olísdeild kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum seinni partinn í dag.

„Við erum ennþá að spila okkur saman sem lið og það var margt jákvætt í þessum leik sem við getum tekið með okkur en við gjörsamlega köstuðum sigrinum frá okkur á síðustu 10 mínútunum. Við náðum ekki að vera kaldar í hausnum þegar mest á reyndi og þessar síðustu 10 mínútur fannst mér við spila eins og við værum þremur mörkum undir en ekki þremur mörkum yfir.

Fyrir Íslandsmótið þá lékum við fimm æfingaleiki og náðum þá ágætu flæði í sóknarleikinn en í dag hökkti vélin verulega mikið og við þurftum að berjast fyrir hverju einasta marki. Við vorum eiginlega bara heppnar að tapa þessu ekki í lokin og við getum þakkað Mörtu markmanni fyrir að það fór ekki verr,“ sagði Birna sem flutti heim í sumar eftir sjö ár í atvinnumennsku í handknattleik í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og síðast í Þýskalandi.

Svekkt yfir eigin frammistöðu

„Varðandi sjálfa mig er ég hundsvekkt með eigin frammistöðu. Eg var alltof stöð í fyrri hálfleik og einhvern veginn náði mér aldrei á strik. Ég á mikið inni og vil skila mínu dagsverki miklu betur en ég gerði í dag. Sem betur fer ræðst mótið ekki af þessum eina leik og það er nóg eftir en ég þarf að skoða hvað ég get gert betur til að hjálpa liðinu meira en ég gerði í dag.

Annars er ótrúlega skemmtilegur vetur framundan og gaman að vera komin heim eftir sjö ár í atvinnumennsku. Ég vona að deildin verði jafnari en síðustu ár og að fleiri lið geti strítt Fram og Val. Það er svo miklu skemmtilegra þegar leikirnir eru jafnir og spennandi og það virðist sem að allir geti strítt öllum. Svo er líka gaman að sjá bætta umfjöllun um kvennahandboltann. Það er mikið fagnaðarefni,“ sagði valkyrjan og handknattleikskonan Birna Berg Haraldsdóttir, leikmaður ÍBV, við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -