Nái Haukar frumkvæði getur forskot Vals horfið fljótt

Aron Kristjánsson, stýrði Haukum í síðasta sinn í Vestmannaeyjum í gær. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Þriggja marka forskot hjálpar Valsmönnum. Fyrir vikið verður örlítið á brattann að sækja fyrir Hauka. En að sama skapi getur þriggja marka forskot verið fljótt að ganga mönnum úr greipum. Við sáum ákveðna sveiflu í fyrri leiknum. Valur um tíma sex mörkum yfir en Haukar náðu að minnka forskotið niður í eitt mark um skeið,“ sagði Einar Andri Einarsson, handknattleiksþjálfari þegar handbolti.is heyrði í honum í morgun vegna síðari úrslitaleiks Hauka og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla sem fram fer í kvöld í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.


Leikurinn hefst klukkan 19.30. Valur vann fyrri viðureignina, 32:29, og segja má að Hlíðarendaliðið hafi þriggja marka forskot eftir fyrri hálfleik.

„Ég held að möguleikar liðanna séu nokkuð jafnir í leiknum. Maður reiknar með að Haukar taki frumkvæðið eða geri að minnsta kosti allt til þess. Takist þeim að ná frumkvæðinu þá getur forskot Vals verið fljótt að núllast út,“ sagði Einar sem á ekki von á miklum breytingum á leikskipulagi liðanna.

Lagfæringar fremur en breytingar

„Ég er búinn að fara yfir fyrri leiki liðanna deildinni í vetur. Segja má að áttatíu prósent af því sem liðin sýndu í þeim leikjum hafi komið fram í fyrri viðureigninni á þriðjudaginn var. Tíminn er skammur á milli leikja. Þar af leiðandi hafa menn ekki tök á að gera mikla breytingar. Vafalaust verður þó eitthvað um lagfæringar sem verða mistjafnlega augljósar og þá sérstaklega gegn einstaka leikkerfum.“

Hlaupa betur til baka

Einar Andri segir ljóst að Haukar verði að skoða vel hlaup sín til baka í vörninni gegn hraðaupphlaupum og seinni bylgju Valsmanna. Þar hafi Haukar ekki gert nógu vel á þriðjudagskvöldið. „Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvað Haukar gera. Eins varð sóknarleikur Vals stífari þegar á leikinn leið. Þess vegna verða væntanlega einhverjar lagfæringar gerðar.
Ég held hinsvegar að megináherslur liðanna verði lítt breyttar og út á við verði fæstir varir við miklar breytingar,“ sagði Einar Andri ennfremur.

Þarf að fjúka í flest skjól

Ef annað hvort lið nær góðu forskoti þegar á líður leikirnn er afar sennilegt að mati Einars Andra að brugðist verði við með nýjungum sem ekki hafi mikið sést á leiktíðinni hjá þessum liðum. Þau verði þá nauðbeygð til þess að bregðast hratt við og kannski á óvæntan hátt.

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Þá kemur í ljós á hverju menn hafa reynt að liggja fram til þessa. En verði leikurinn í járnum þá munu þjálfararnir halda í það sem þeir hafa staðið fyrir á keppnistímabilinu. Menn fara ekki ótilneyddir í eitthvað sem þeir þekkja ekki hvaða árangri muni skila nema þá að fokið verði í flest önnur skjól.“

Verða Stefán og Brynjólfur með?

Stefán Rafn Sigurmannsson lék ekkert með í fyrri leiknum á þriðjudaginn vegna meiðsla. Eins meiddist hægri hornamaðurinn Brynjólfur Snær Brynjólfsson á ökkla snemma í síðustu viðureign. Einar telur að það eigi ekki að koma óvart þótt Stefán Rafn verði í leikmannahópi Hauka í kvöld. Hinsvegar geti verið óljóst hversu mikið hann getur tekið þátt.


„Haukar eru með Ella [Elís Þór Rafnsson] sjúkraþjálfara innan sinna raða. Hann er einstaklega fær í starfi. Það er aldrei að vita hvað honum hefur tekist að töfra upp úr hatti sínum. Elli verður að sýna allar sínar bestu kunnáttu í töfrum til að gera Stefán Rafn leikfæran. En verði minnsti möguleiki á að Stefán geti verið með þá verður hann í hópnum.


Meiðsli Brynjólfs eru að einhverju leyti meðfærilegri en á móti kemur að tíminn er ekki langur á milli leikja. Vonandi geta báðir tekið eitthvað þátt í leiknum,“ sagði Einar Andri Einarsson handknattleiksþjálfari sem var með öllu ófáanlegur til að veðja á hvort Íslandsbikarinn verður geymdur á Ásvöllum eða á Hlíðarenda næsta árið.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -