- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nárameiðsli herja á Lárus Helga

Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Ég prófaði að hita upp en fann fljótt að ég gat ekki haldið áfram,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, við handbolta.is í gærkvöld eftir leik Fram og Gróttu í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Athygli vakti að Lárus Helgi sat á varamannabekknum allan leiktímann og gerði sig ekki líklegan til þess að koma inn á leikvöllinn.

Lárus Helgi sagði það ekki kom til af góðu. Hann tognaði í nára á æfingu fyrir skömmu.


Lárus Helgi sagði ekki reikna með að um alvarlega tognun væri að ræða. Hinsvegar væru meiðsli af þessum toga erfið viðureignar. Þar af leiðandi væri rétt að hafa allan varan á til að bæta ekki gráu ofan á svart.


Lárus Helgi fór á kostum í fyrstu leikjum Fram í Olísdeildinni og einnig í Coca Cola-bikarnum á dögunum, jafnt í undanúrslitaleiknum við Stjörnuna og í úrslitaleiknum við Fram. Skarð er þar af leiðandi fyrir skildi hjá Safamýrarliðinu um þessar mundir. Á meðan Lárus Helgi verður frá keppni standa Valtýr Már Hákonarson og hinn efnilegi markvörður, Andri Máni Daðason, vaktina á milli stanganna í Fram markinu.


Fyrir dyrum standa þrír leikir hjá Framliðinu áður en hlé verður gert á keppni í Olísdeildinni um mánaðarmótin vegna æfingaviku A-landsliðs karla. Næsti leikur verður á heimavelli gegn HK á laugardaginn. Rúmri viku síðar sækja Framarar Víkinga heima áður en þeir taka á móti ÍBV í Framhúsinu föstudaginn 29. október.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -