- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nauðsynlegt að koma saman og rifja upp og skerpa á

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, leggur á ráðin fyrir æfingu kvennalandsliðsins í Víkinni. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ég er þakklátur HSÍ og félögunum fyrir að opna á möguleika fyrir landsliðið að koma saman á þessum tíma þótt ekki sé um alþjóðlega landsliðsviku að ræða,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is.


Kvennalandsliðið, alltént sá hópur leikmanna sem leikur með íslenskum félagsliðum, hefur verið saman við æfingar í Reykjavík síðan á miðvikudag. Æfingabúðirnar standa yfir til sunnudags og er liður í undirbúningi fyrir þátttöku landsliðsins í forkeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Norður-Makedóníu 19.-21. mars.


„Það var kominn tími til að við gætum komið saman. Ástandið hefur komið í veg fyrir það þar til núna,“ sagði Arnar en til stóð að vera með æfingabúðir í byrjun október en ekkert varð úr. Síðast kom æfingahópur saman í júní á síðasta ári.


„Við hittumst ekkert árið 2020 að undanskildum nokkrum dögum í júní. Þess vegna var orðið nauðsynlegt að koma saman og skerpa á hlutunum og rifja annað upp,“ sagði Arnar.

„Við erum að fá inn ferska leikmenn í bland við þá reyndari. Það er nú ekki að eiga sér stað algjör kynslóðaskipti,“ segir Arnar en m.a. vegna þess að handknattleikskonur sem leika með félagsliðum erlendis gátu ekki komið til æfinganna núna er nokkuð um lítt og jafnvel óreynda leikmenn að ræða í hópnum að þessu sinni.

Mannabreytingar í vörninni


Þá er einnig ljóst að breyting verður á varnarleik landsliðsins þar sem Ester Óskarsdóttir, burðarás í 5/1 vörn landsliðsins síðustu árin, er ekki með að þessu sinni. Eins er Arna Sif Pálsdóttir úr leik um þessar mundir en hún er barnshafandi. Arnar segir að í ljósi þessa sé hann m.a. í æfingabúðunum að þessu sinni að koma öðrum leikmönnum inn í hlutverk Esterar og Örnu Sifjar.


„Við munu áfram leggja áherslu á 5/1 vörnina sem hefur verið aðal landsliðsins undanfarin ár. Einnig erum við að vinna í annarri útfærslu á vörn og með nýjum áherslum. Meðal annars þess vegna höfum við valið Sunnu Jónsdóttur í hópinn. Hún er flottur leikmaður með mikla reynslu. Sunna verður lykilmaður í 6/0 vörn okkar þar sem reynsla hennar nýtist mjög vel,“ sagði Arnar.

Huga þarf betur að markvörðum

Enginn þriggja markvarða sem eru í landsliðshópnum að þessu sinni hefur leikið landsleik. Að undanskildri Elínu Jónu Þorsteinsdóttur, markverði Vendsyssel í Danmörku er lítið sem ekkert um reynda markverði í íslenska landsliðinu um þessar mundir. Hafdís Renötudóttir sem fór til Lugi í haust heldur sig til hlés vegna höfuðhöggs eins og fleiri markverðir. Nokkur lið í Olísdeildinni tefla fram erlendum markvörðum. Þetta leiðir hugann að markvarðastöðunni í íslenskum kvennahandknattleik sem hlýtur að vera áhyggjuefni um þessar mundir.


Arnar viðurkennir að reynslan sé ekki mikil en þær þrjár sem eru nú í hópnum hafi staðið sig vel. Hinsvegar er ljóst að félögin og fleiri verði að leiða betur hugann að markvarðastöðunni.

„Ég bind vonir við að þessar þrjár haldi áfram að bæta sig. En vissulega er þetta eitt þeirra atriða sem skoða verður ofan í grunninn en um leið styðja betur við bakið á þeim markvörðum sem fyrir eru. Við verðum um leið gera enn betur í framtíðinni, á því leikur enginn vafi,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -