Naumt tap í hörkuleik í Lübeck

U18 ára landslið karla sem tekur þátt í EM. Mótið hefst á fimmtudaginn. Mynd/Andri Sigfússon

U18 ára landslið Íslands í handknattleik karla tapaði naumlega fyrir þýska landsliðinu í þriðju og síðustu umferð á æfingamóti, Nations Cup, í Lübeck í Þýskalandi í kvöld, 34:32.


Leikurinn var í járnum nær allan leikinn en það var rétt um miðjan seinni hálfleik sem Þjóðverjar náðu sex marka forskoti þegar íslensku strákarnir voru nokkrum sinnum reknir af velli á skömmum tíma.

Andrés Marel Sigurðsson og Sigurður Snær Sigurjónsson. Þeir léku afar vel í kvöld. Mynd/Andri Sigfússon


Þegar um tíu mínútur voru til leiksloka náði íslenska liðið góðum kafla og lék á alls oddi. Þegar um mínúta var eftir áttu íslensku piltarnir möguleika á að jafna leikinn en markskot geigaði og Þjóðverjar fengu tækifæri til að skora sem þeir létu ekki bjóða sér tvisvar. Lokatölur, 34:32.


Flottur leikur hjá okkar strákum þrátt fyrir tveggja marka tap. Þessir leikir sem Íslendingar léku á mótinu hafa nýst liðinu mjög vel og er góður undirbúningur fyrir EM sem hefst 4. ágúst. Íslenska liðið vann hollenska landsliðið með yfirburðum en tapaði naumlega fyrir Noregi og Þýskalandi.Mörk Íslands: Elmar Erlingsson 5, Sigurður Snær Sigurjónsson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Atli Steinn Arnarson 4, Andrés Marel Sigurðsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 3, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 2, Össur Haraldsson 2, Andri Fannar Elísson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Sæþór Atlason 1.

Varin skot: Breki Hrafn Arnason 7, Ísak Steinsson 2.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -