- Auglýsing -
- Auglýsing -

Níunda rimman við Slóvena

Sigríður Hauksdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Eva Björk Davíðsdóttir, Helena Rut Örvarsdóttir og Ágúst Þór Jóhannsson verða í eldlínunni í Ljubljana í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna mætir í dag Slóveníu í fyrri viðureign þjóðanna um keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni frá 1. til 19. desember. Flautað verður til leiks í Sportni Park Kodeljevo-íþróttahöllinni í Ljubljana klukkan 15.30. Leikurinn verður sýndur hjá RÚV.
  • Síðari leikurinn fer fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið klukkan 19.45.
  • Samanlögð úrslit leikjanna tveggja ráða því hvort landsliðið tryggir sér farseðilinn á HM á Spáni. Verði markatalan jöfn eftir leikina mun liðið sem skorar fleiri mörk á útivelli halda áfram.
  • Íslenska kvennalandsliðið hefur einu sinni tekið þátt í heimsmeistaramóti. Það var þegar mótið fór fram í Brasilíu í desember 2011. Þrjár úr íslenska landsliðshópnum í dag tóku þátt í HM 2011, Birna Berg Haraldsdóttir, Karen Knútsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir. Ágúst Þór Jóhannsson sem er aðstoðarþjálfari landsliðsins í dag var landsliðsþjálfari Íslands á HM 2011. Auðvitað var Obba liðsstjóri, Þorbjörg Jóhanna Gunnarsdóttir, með á HM eins og í Ljubljana í dag.
  • Viðureignin í dag verður sú níunda á milli kvennalandsliða Íslands og Slóveníu. Fyrsti leikur þjóðanna var 18. júní 1992. Íslenska landsliðið vann, 22:19, en um var að ræða sex þjóða æfingamót í Portúgal. Þetta er jafnframt eini sigur Íslands á Slóveníu í kvennaflokki.
  • Síðast mættust landslið Íslands og Slóveníu í mars 2018 í undankeppni EM sem fram fór síðar það ár. Jafntefli varð í viðureigninni í Laugardalshöll 21. mars, 30:30. Slóvenar unnu síðari leikinn með 10 marka mun, 28:18, en leikið var í Celje í Slóveníu 25. mars.
  • Íslenska landsliðið kom til Ljubljana seint á fimmtudagskvöld eftir strangt ferðalag. Gærdagurinn var vel nýttur til undirbúnings fyrir leikinn í dag, með æfingu, fundum og gönguferð.
  • Allur íslenski hópurinn í Ljubljana fór í skimun fyrir kórónuveiru í gær og reyndust niðurstöður neikvæðar hjá öllum.
  • Eva Björk Davíðsdóttir leikur sinn 40. landsleik í dag, Ragnheiður Júlíusdóttir leikur sinn 30. landsleik og Sigríður Hauksdóttir sinn 20. landsleik.
  • Karen Knútsdóttir er leikjahæst í landsliðinu um þessar mundir. Leikurinn í dag verður hennar 103. Rut Arnfjörð Jónsdóttir á ekki langt í 100. landsleikinn. Hún klæðist landsliðspeysunni í 98. sinn í Sportni Park Kodeljevo-íþróttahöllinni í Ljubljana.
  • Fæsta landsleiki á Mariam Erazde. Hún leikur í dag sinn annan landsleik. Stalla hennar úr Val, Saga Sif Gísladóttir, klæðist landsliðspeysunni í þriðja sinn í dag í A-landsleik.
  • Þrettán af sextán leikmönnum íslenska landsliðsins í dag tóku þátt í forkeppni HM fyrir um mánuði í Skopje. Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir, Karen Knútsdóttir og Mariam Eradze komu inn í hópinn að þessu sinni. Sunna Jónsdóttir og Steinunn Björnsdóttir meiddust í Skopje og eru frá keppni. Katrín Ósk Magnúsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Tinna Sól Björgvinsdóttir voru ekki valdar í 16 manna hópinn að þessu sinni. Þær eru á hliðarlínunni heima og geta hugsanlega komið inn í hópinn fyrir síðari leikinn á miðvikudagskvöldið.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -