- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óðinn og félagar fyrstir til að skella Viktori og GOG

Óðinn Þór Ríkharðsson í leik með TTH á leiktíðinni. Mynd/TTH Holstebro
- Auglýsing -

Óðinn Þór Ríkharðsson og samherjar í Holstebro komust upp í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik með því að vinna efsta liðið, GOG, örugglega, 35:30 á heimavelli GOG. Holstebro var með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda og hafði þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:11.


Viktor Gísli Hallgrímsson náði sér ekki á strik í marki GOG. Hann varði sex skot, þar af tvö vítaköst. Félagi hans Sören Haagen var daufari og varði ekkert af þeim sjö skotum sem hann fékk að spreyta sig á.


Ein skærasta stjarna heimsmeistaraliðs Dana, Mathias Gidsel, var fjarri sínu besta og skoraði aðeins tvö mörk fyrir GOG. Emil Jakobsen lét HM ekki slá sig út af laginu og skoraði 10 mörk fyrir GOG og annar leikmaður úr gullliði Dana, Morten Olsen skoraði fimm sinnum.

Óðinn Þór skoraði ekki mark fyrir Holstebro að þessu sinni.


Þetta var fyrsta tap GOG í deildinni á leiktíðinni. Liðið er enn efst með 32 stig eftir 18 leiki. Aalborg er næst með 29 stig eftir 19 leiki, Holstebro hefur 26 stig eftir 19 leiki og Bjerringbro/Silkeborg 25 stig en hefur lokið 18 leikjum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -