- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óðinn Þór og Arnór eru í vænlegri stöðu í Danmörku

Óðinn Þór Ríkharðsson í leik með TTH á leiktíðinni. Mynd/TTH Holstebro
- Auglýsing -

Aalborg og Holstebro eru komin langleiðina í undanúrslit um danska meistaratitilinn í handknattleik karla þótt enn eigi eftir að leika tvær umferðir í þeim riðli sem liðin eiga sæti í átta liða úrslitum. Meistarar Aalborg gerðu jafntefli í dag við Skjern á útivelli en Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Holstebro unnu stórsigur Skanderborg á útivelli, 36:28.
Aalborg og Holstebro hafa sjö stig hvort í riðlinum. Skjern er með þrjú stig og Skanderborg tvö.


Óðinn Þór skoraði fimm mörk fyrir Holstebro að þessu sinni.
Elvar Örn Jónsson og félagar gerðu jafntefli við ríkjandi meistara í Aalborg Håndbold á heimavelli, 28:28, eftir kaflaskiptan síðari hálfleik. Elvar Örn skoraði eitt mark, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli.
Aalborg-liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Liðið hélt frumkvæði sínu allt fram í miðjan síðari hálfleik þegar leikmönnum Skjern tókst að jafna metin og síðan komast yfir, 22:21, með þremur mörkum í röð.


Skjern náði mest fjögurra marka forskoti, 28:24, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Þar með var úti ævintýri og meistararnir skoruðu fjögur síðustu mörk leiksins. Felix Claar jafnaði metin eftir gegnumbrot þegar 54 sekúndur voru til leiksloka og þar við sat. Nokkur darraðardans var á síðustu sekúndunum og m.a. skoraði Skjern mark sem ekki var gilt. Upp úr því fékk liðið aukakast sem hafnaði í varnarvegg Álaborgarliðsins.


Arnór Atlason er sem fyrr aðstoðarþjálfari Aalborg og var að vanda á hliðarlínunni í dag með Stefan Madsen þjálfara.


Fjórða umferð í hinum riðli átta liða úrslitanna fer fram á morgun. Í þeim riðli stendur GOG, liðið sem Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með, vel að vígi. GOG leikur við Svein Jóhannsson og samherja í SönderjyskE á morgun og Ágúst Elí Björgvinsson og félagar í Kolding mæta Bjerringbro/Silkeborg.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -