- Auglýsing -
- Auglýsing -

Okkur skorti aðeins meiri gæði

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, og leikmenn hans. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals var skiljanlega vonsvikinn eftir að ljóst varð að Fram væri Íslandsmeistari í handknattleik kvenna 2022 og að hans lið yrði að gera sér annað sætið að góðu eftir naumt tap, 23:22, í fjórðu viðureign liðanna í úrslitum í Origohöllinni í kvöld. Valur vann einn leik en Fram þrjá og fjórum mörkum munaði á liðunum þegar upp var staðið.


„Framliðið er sterkara en við um þessar mundir og ég vil óska Fram til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn. Þegar upp er staðið þá var sigur Fram sanngjarn. Það eru meiri gæði í liðinu sem gera gæfumuninn í jöfnum leikjum, ekki síst í leikmönnum eins og Karen og Steinunni,“ sagði Ágúst Þór við handbolta.is.


„Við erum hinsvegar með gott lið sem er ekkert langt á eftir. Ég vissi það hinsvegar að til þess að við gætum lagt Fram í úrslitarimmunni þá yrði flest að ganga upp hjá okkur. Því miður þá gerum við alltof mörg mistök þegar mestu máli skiptir í leikjunum, til dæmis þegar komið er í jafnan leik eins og til dæmis í kvöld. Hver mistök eru dýr þegar upp er staðið. Okkur skorti bara aðeins meiri gæði,“ sagði Ágúst Þór sem viðurkenndi að hann væri vonsvikinn yfir að hafa ekki orðið Íslandsmeistari.


„Við lentum í öðru sæti í deildinni, stigi á eftir Fram og erum einnig í öðru sæti í úrslitakeppninni en vinnum bikarkeppnina sem var frábært. Maður er svekktur í kvöld en þegar frá líður þá kannski verð ég og við sáttari við útkomuna,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -