- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Dujshebaev sá til þess að hefðin var rofin

Leikmenn spænska landsliðsins voru kampakátir þegar sigurinn á Svíum var í höfn. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Alex Dujshebaev sá til þess að spænska landsliðið braut hefðina gegn sænska landsliðinu í átta liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í nótt. Hann skoraði sigurmark Spánverja í háspennuleik, 34:33, þegar tvær sekúndur voru til leiksloka í viðureign Spánar og Svíþjóðar.


Hampus Wanne hafði jafnað metin úr vítakasti fyrir Svía þegar hálf mínúta var til leiksloka, 33:33.


Fram að leiknum í nótt höfðu Svíar þrisvar sinnum í gegnum tíðina mætt Spánverjum í útsláttarkeppni Ólympíuleika í handknattleik karla. Sænska landsliðið hafði ævinlega haft betur. Í ljósi þess var sigurmark Dujshebaev enn sætara en ella fyrir Spánverja.


Spánn mætir annað hvort Danmörku eða Noregi í undanúrslitum á fimmtudaginn. Viðureign Dana og Norðmanna hefst klukkan átta og má m.a. fylgjast með leiknum á RÚV2.


Svíar voru tveimur mörkum yfir að lokum fyrri hálfleik, 20:18. Þeir fór hinsvegar illa að ráði sínu þegar á leikinn leið og máttu súpa af því seyðið þegar upp var staðið.


Hampus Wanne var markahæstur hjá Svíum með 10 mörk, þar af fjögur úr vítaköstum. Fredric Pettersson var næstur með sex mörk. Jim Gottfridsson skoraði fimm mörk auk þess að vera drjúgur við stoðsendingar eins og hans er von og vísa enda stoðsendingakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta keppnistímabili.


Aleix Gomez Abello skoraði átta mörk fyrir spænska landsliðið. Hann skoraði átta sinnum, þar af fimm sinnum úr vítaköstum. Alex Dujshebaev skoraði fimm mörk eins og gamla brýnið Raúl Entrerrios. Adrian Figueras skoraði fjögur mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -