ÓL: Gott veganesti inn í átta liða úrslit

Leikmenn norska landsliðsins fagna góðum sigri á Frökkum á Ólympíuleikunum í morgun. Mynd/EPA

Noregur vann Frakkland í lokaleik þeirra í A-riðli handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum, 32:29, eftir jafna stöðu í hálfleik, 15:15. Úrslit leiksins breyta engu um niðurstöðuna í riðlinum. Frakkar verða efstir, Spánverjar í öðru sæti, Þjóðverjar sem leika við Brasilíu síðar í dag, hafna í þriðja sæti og Norðmenn hreppa fjórða sætið.


Þar af leiðandi má telja nokkuð víst að Norðurlandaslagur verði í átta liða úrslitum á þriðjudaginn á milli Dana og Norðmanna. Danska liðið er efst í B-riðli en það á eftir að mæta sænska landsliðinu í dag. Svíar gætu með stórsigri sett strik í reikninginn en það verður að teljast ósennilegt eins og leikir mótsins hafa spilast hingað til að Svíar bursti Dani.


Norðmenn léku vel í morgun gegn Frökkum. Vafalaust besti leikur norska liðsins á leikunum til þessa og gott veganesti fyrir það inn í átta liða úrslit. Leikmönnum norska liðsins brást bogalistin í fjórum vítaköstum.


Frakkar höfðu ekki að miklu að keppa. Efsta sætið í A-riðli og leikur við Barein í átta liða úrslitum á þriðjudaginn var í hendi áður en flautað var til leiksins. Timothey N’Guessen tognaði á kálfa í leiknum samkvæmt óstaðfestum fregnum. Sé svo gæti hann verið úr leik það sem eftir er mótsins.

Norski línumaðurinn þrautreyndi, Bjarte Myrhol, skorar eitt fjögurra marka sinn. Mynd/EPA


Sander Sagosen var markahæstur í norska liðinu með sjö mörk. Kevin Guliksen skoraði fimm mörk. Bjarte Myrhol, Christian O’Sullivan og Harald Reinkind skoruðu fjögur mörk hver.


Nikola Karabatic skoraði fimm mörk fyrir franska landsliðið og var markahæstur ásamt Hugo Descat. Ludovig Fabregas var næstur með fjögur mörk.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -