ÓL: Sögulegar staðreyndir

Frakkar hafa sex sinnum lekið til undanúrslita í handknattleikskeppni karla á ÓL og unnið fjórum sinnum. Mynd/EPA
  • Franska landsliðið í handknattleik karla verður fyrsta landsliðið til þess að leika fjórum sinnum til úrslita á Ólympíuleikunum á laugardaginn. Þeir fara þar með fram úr sænska landsliðinu sem lék til úrslita á þrennum leikum í röð frá 1992 til og með 2000.
  • Egypska landsliðið verður fyrsta afríska landsliðið sem leikur til úrslita um verðlaun í handknattleik á Ólympíuleikum, hvort sem litið er til karla eða kvenna.
  • Aðeins eitt landslið frá landi utan Evrópu hefur áður leikið til verðlauna í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum. Landslið Suður Kóreu mætti landsliði Sovétríkjanna í úrslitaleik á ÓL 1988 en tapaði, 32:25.
  • Þrettán handknattleiksmenn hafa unnið gullverðlaun á öllum stórmótunum þremur, þ.e. Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum auk Meistaradeildar Evrópu. Þeir eru:

    Rússarnir Oleg Grebnev og Oleg Kiselyov, Frakkarnir Jerome Fernandes, Didier Dinart, Daniel Narcisse, Nikola Karabatic, Thierry Omeyer, Joël Abati, Luc Abolo, Michaël Guigou, Cedric Sorhaindo og Danirnir Niklas Landin og Lasse Svan.
  • Vinni Frakkar úrslitaleikinn á laugardaginn bætast Vincent Gerard og Valetine Porte í hópinn. Lánist Spánverjum að verða Ólympíumeistarar bætast fjórir spænskir handknattleiksmenn í ofangreindan hóp.
  • Hvernig sem úrslitaleikurinn fer er öruggt að Nikola Karabatic vinnur til verðlauna í 16. sinn á ferlinum með franska landsliðinu.
  • Karabatic, Guigou og Abolo vinna sín fjórðu verðlaun á ÓL á laugardaginn. Þar með jafna þeir metin við rússneska markvörðinn Andrey Lavrov sem vann þrenn gullverðlaun og ein bronsverðlaun á Ólympíuleikum á ferlinum.
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -