Ómar Ingi er sá besti í Þýskalandi

Ómar Ingi Magnússon hefur svo sannarlega leikið frábærlega eftir að hann gekk til liðs við Magdeburg fyrir tveimur árum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Áfram heldur Ómar Ingi Magnússon landsliðsmaður í handknattleik og íþróttamaður ársins á Íslandi 2021, að sópa að sér viðurkenningum fyrir frábæra frammistöðu í þýsku 1. deildinni í handknattleik á nýliðinni leiktíð. Í dag var upplýst að hann hafi verið kjörinn leikmaður ársins í þýsku 1.deildinni í kjöri sem síða deildarinnar hefur staðið fyrir um skeið.


Óhætt er að segja að Ómar Ingi hafi unnið kosninguna með trompi því hann fékk um tvo þriðju af atkvæðunum, eða 65%. Næstur var fyrirliði þýska landsliðsins og línumaður Flensburg, Johannes Golla. Daninn Hans Óttar Lindberg var þriðji með rúm 10%.


Forsvarsmenn síðunnar höfðu áður tekið út einn leikmann í hverri stöðu sem lesendur gátu valið á milli.


Ómar Ingi varð þýskur meistari með SC Magdeburg fyrr í þessum mánuði. Einnig varð hann næst markahæsti leikmaður deildarinnar og er einn af fáum leikmönnum í sögu deildarinnar sem skorað hefur yfir 500 mörk á tveimur fyrstu keppnistímabilum sínum. Þess utan var Ómar Ingi valinn í lið ársins annað árið í röð auk þess að vera valinn besti leikmaður maímánaðar. Ekki má heldur gleyma því að Ómar Ingi var markakóngur Evrópumóts landsliða í janúar.


Efstu menn í kjörinu á leikmanni keppnistímabilsins 2021/2022:
Ómar Ingi Magnússon (SC Magdeburg) 65,26%.
Johannes Golla (SG Flensburg-Handewitt) 10,92%.
Hans Lindberg (Füchse Berlin) 10,79%.
Jim Gottfridsson (SG Flensburg-Handewitt) 5,57%.
Simon Jeppsson (HC Erlangen) 3,6%.
Kevin Møller (SG Flensburg-Handewitt) 2,41%.
Hampus Wanne (SG Flensburg-Handewitt) 1,45%.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -