- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi lék eins og sá sem valdið hefur

Ómar Ingi Magnússon leikmaður SC Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn fyrir Magdeburg í dag þegar liðið tók Stuttgart í kennslustund í Porsche-Arena í Stuttgart í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Lokatölur 32:22 en aðeins var tveggja marka munur á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 16:14, fyrir Magdeburg. Þetta var 21. leikur liðsins í deildinni í röð án taps þegar leikir í öllum mótum eru taldir saman.

Magdeburg hefur 34 stig eins og Flensburg sem er efst en Magdeburg hefur leikið þremur leikjum meira. Kiel er stigi á eftir og á 19 leiki að baki eins og Flensburg.

Ómar Ingi lék eins og sá sem valdið hefur. Hann skoraði níu mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Einnig átti hann nokkrar stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg. Hann fór úr axlarlið fyrir viku og leikur ekki með næstu mánuði af þeim sökum.

Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk fyrir Stuttgart, þar af þrjú úr vítaköstum. Hann lék í hægra horninu í sókn á lokakafla leiksins.

Annars var sóknarleikur Stuttgart-liðsins dapur lengi vel. Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik þá skoraði Stuttgart aðeins fimm mörk á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleik og undir lokin voru leikmenn liðsins nánast búnir að leggja árar í bát sem gerði að verkum að tapið var stærra en ástæða var til.

Daninn Jannick Green varði 13 skot, þar af eitt vítakast í marki Magdeburg á bak við góða vörn. Hann var með 41% hlutfallsmarkvörslu. Johannes Bitter stóð í marki Stuttgart í síðari hálfleik og varði 9 skot, 36%. Kollegi hans, Primoz Prost, náði sér ekki á strik í fyrri hálfleik.

Staðan í þýsku 1. deildinni:
Flensburg 34(19), Magdeburg 34(22), Kiel 33(19), Rhein-Neckar Löwen 32(22), Göppingen 29(21), Bergischer HC 27(22), Füchse Berlin 27(22), Leipzig 23(23), Lemgo 22(21), Wetzlar 22(22), Erlangen 22(23), Melsungen 21(18), Stuttgart 21(23), Hannover-Burgdorf 18(22), GWD Minden 16(23), Balingen-Weilstetten 13(22), Nordhorn 10(21), Essen 9(21), Ludwigshafen 9(21), Coburg 8(23).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -