- Auglýsing -
- Auglýsing -

Örlög sjö liða ráðast um helgina

Mia Rej og félagar í Odense Håndbold leika öðru sinni við Vipers í 16-liða úrslitum Meistaradeildar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Seinni leikir í 16-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna fara fram um helgina en fjögur lið, CSM Búkarestí, Rostov-Don, Györ og Brest standa vel að vígi eftir góða sigra í fyrri leikjunum um síðustu helgi. Það er þó töluverð spenna í öðrum viðureignum.

Ungverska liðið FTC vonast til að vinna upp þriggja marka mun gegn Buducnost á heimavelli sínum. CSKA tapaði óvænt með fimm marka mun gegn Krim um síðustu helgi og það er ljóst að það verður erfitt fyrir þær að vinna þann mun upp.

Mesta spennan er í viðureign Vipers og Odense en aðeins eitt mark skilur á milli þeirra eftir fyrri leikinn. Nú þegar er eitt lið komið áfram í 8-liða úrslitin en það er franska liðið Metz en það átti að mæta þýska liðinu Dortmund í tvíhöfða um helgina. Forsvarsmenn þýska liðsins tóku þá ákvörðun að það væri ekki forsvaranlegt að senda liðið til Frakklands í ljósi þess hversu alvarlegt ástandið sé vegna Covid-19 og ákváðu því að gefa leikina frekar.

Leikir helgarinnar

CSM Búkarestí – Valcea | Laugardagur 13. mars  kl 14.00 (33-24 eftir fyrri leikinn)

  • Sigur CSM um síðustu helgi var stærsti sigur þeirra á Valcea í sögunni.
  • Skærasta stjarna CSM, Cristina Neagu, skoraði 13 mörk í fyrri leik liðanna og er þar með komin með 89 mörk í Meistaradeildinni í vetur, átta mörkum minna en Ana Gros sem er markahæst.
  • Á síðustu fimm leiktíðum hefur CSM aldrei mistekist að komast í 8-liða úrslit.
  • CSM hefur aldrei tapað á heimavelli með meira en sjö mörkum, versta tap þeirra á heimavelli á þessari leiktíð var þegar liðið tapaði, 29-22, fyrir Vipers.

Györ – Bietigheim | Laugardagur 13. mars  kl 14.00  (37-20 eftir fyrri leikinn)

  • 17 marka tap Bietigheim um síðustu helgi var versta tap liðsins í Meistaradeildinni í vetur.
  • Þetta verður 40. leikur Bietigheim en liðið hefur aðeins unnið sjö þeirra en Györ hefur hins vegar unnið 172 leiki í Meistaradeildinni.
  • Györ hefur ekki tapað á heimavelli í 40 leikjum í röð en síðasti tapleikur liðsins á heimavelli var gegn Midtjylland í október 2015.
  • Bietigheim hefur unnið 2 af 19 útileikjum sínum og einn þeirra vannst í Ungverjalandi gegn FTC í riðlakeppninni á þessari leiktíð.
  • Trine Ostergaard hægri hornamaður og markvörðurinn Emily Sandi gætu spilað með Bietigheim í þessum leik en þær gátu ekki tekið þátt í fyrri leiknum vegna meiðsla.

CSKA – Krim | Laugardagur 13. mars  kl 14.00 (20-25 eftir fyrri leikinn)

  • Frammistaða Jovönu Risovic markvarðar Krim var stór þáttur í fimm marka sigri Krim um síðustu helgi, en hún varði alls 26 skot.
  • CSKA vann sjö af átta heimaleikjum þeirra í riðlakeppninni og gerðu eitt jafntefli.
  • Krim tapaði fjórum útileikjum sínum í riðlakeppnini ásamt því að gera þrjú jafntefli.
  • CSKA vonast til að Darya Dmitrieva fyrirliði liðsins nái að spila leikinn á laugardaginn en hún var meidd í fyrri leiknum.

FTC  – Buducnost | Laugardagur 13. mars  kl 16.00 (19-22 eftir fyrri leikinn)

  • Sigur Buducnost um síðustu helgi var fimmti sigurleikur þeirra í innbyrðis viðureignum liðanna.
  • Buducnost hefur komist í 8-liða úrslitin á hverri leiktíð frá árinu 2010/2011.
  • FTC hefur komist fjórum sinnum í 8-liða úrslitin en þeim mistókst það á síðustu leiktíð.
  • Ungverska liðið mun vera án þjálfara síns í þessum leik en Gábor Elek var greindur með Covid-19 í síðustu viku.
  • Jovanka Radicevic skoraði sjö mörk í leiknum um síðustu helgi en hún er þriðja markahæst í Meistaradeildinni með 73 mörk.

Rostov-Don – Podravka | Sunnudagur 14. mars  kl 14.00 (29-20 í fyrri leiknum)

  • Rostov vonast til að komast í 8-liða úrslitin fjórða tímabilið í röð.
  • Hornamenn Rostov skiluðu góðu framlagi um síðustu helgi en þær Polina Kuznetsova, Iuliia Managarova og Katarina Krpez skoruðu samtals 14 mörk.
  • Þetta var fyrsti leikurinn hjá Podravka undir stjórn Antonio Pranjic en hann tók við liðinu eftir að Zlatko Saracevic lést skyndilega fyrir skömmu.

Brest – Esbjerg | Sunnudagur 14. mars  kl 12.00 (33-27 í fyrri leiknum)

  • Ana Gros leikmaður Brest vantar aðeins 3 mörk til þess að rjúfa 100 marka múrinn á þessari leiktíð.
  • Bæði þessi lið komust í 8-liða úrslit á síðustu leiktíð.
  • Esbjerg endurheimti toppsætið í dönsku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn þegar liðið vann Randers, 34-16, í lokaumferðinni.

Odense – Vipers | Sunnudagur 14. mars  kl 14.00 (36-35 eftir fyrri leikinn)

  • Odense getur komist í 8-liða úrslit í annað skiptið en þetta er jafnframt aðeins í annað skiptið sem liðið tekur þátt í Meistaradeildinni.
  • Vipers verður án þeirra Noru Mørk og Heidi Løke í leiknum en þær eru enn meiddar.
  • Eftir að hafa unnið sjö fyrstu leikina í Meistaradeildinni hefur Vipers tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -