- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ótrúlega stoltur af þessu tækifæri

Orri Freyr Þorkelsson á lið inn úr vinstra horninu í gærkvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Tilfinningin var frábær að taka þátt í leik gegn heimsmeisturunum í milliriðlakeppni á Evrópumóti. Sviðið verður ekki mikið stærra. Það er heiður fyrir mig að fá tækifæri til þess að leika fyrir íslensku þjóðina við þessar aðstæður,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson sem lék allan leikinn við Dani á EM í gærkvöld.

Þrátt fyrir að hafa verið í leikmannahópnum í þremur fyrstu leikjum mótsins þá fékk Orri Freyr fyrst tækifærið til að láta ljós sitt skína í leiknum við Dani í gærkvöld. Hann hljóp í skarðið í vinstra horninu eftir að Bjarki Már Elísson reyndist hafa smitast af covid í gærmorgun.

Orri Freyr Þorkelsson og Ýmir Örn Gíslason, fyrirliði. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


„Ég er ótrúlega stoltur af þessu tækifæri,“ sagði Orri Freyr sem er 22 ára gamall og leikur með norska meistaraliðinu Elverum. Hann gekk til liðs við Elverum á síðasta sumri frá Haukum.


„Ég fékk nokkur tækifæri í leiknum og náði að skora tvö mörk. Ég hefði viljað skora úr einu tækifæri til viðbótar en það er nú þannig að maður skorar ekki í hvert sinn,“ segir Orri Freyr og bætir við að hafa öðlast mikla reynslu af verunni með landsliðinu.


„Ég hef lært mikið af dvölinni og þátttökunni hér og því að vera í kringum strákana í liðinu. Þetta er ómetanlegt og mikill heiður. Til viðbótar eru aðstæður mjög sérstakar með veruna allt í kringum okkur. Ég þurfti skyndilega að yfirgefa herbergið mitt á hótelinu í dag [í gær, fimmtudag] þegar Gísli Þorgeir herbergisfélagi reyndist vera smitaður. Ég vona að landsliðið þurfi aldrei aftur að taka þátt í stórmóti við þessar aðstæður sem nú eru uppi,“ sagði Orri Freyr.

Mikið sjokk

Spurður hvort það hafi ekki verið mikið högg fyrir hópinn þegar upp komst að smit hafi stungið sér niður meðal leikmanna á miðvikudagskvöldið. „Það var mikið sjokk fyrir okkur, ekki síst þar sem um var að ræða afar mikilvæga leikmenn í liðinu. Okkur brá mjög og vorum ekki alveg vissir um hvernig við ættum að bregðast við.


Þegar að leiknum kom í kvöld þá voru við 14 eftir spilklárir. Við þjöppuðum okkur saman og vorum klárir í slaginn og gerðum þetta vel. Ég er afar stoltur yfir að vera hluti af þessum frábæra hóp sem spilaði í kvöld,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í MVM Dome í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -