- Auglýsing -
- Auglýsing -

PCR-prófið týndist – Grétar Ari mátti ekki vera með

Grétar Ari Guðjónsson markvörður Nice. Mynd/Cavigal Nice Handball
- Auglýsing -

Nice tapaði í kvöld mikilvægu stigi í kapphlaupi um sæti í úrslitakeppni frönsku B-deildarinnar í handknattleik þegar liðið gerði jafntefli við botnlið deildarinnar Sarrebourg, 27:27, á útivelli. Grétar Ari Guðjónsson, markvörður, sem hefur verið frábær á leiktíðinni, mátti ekki verið með liðinu í leiknum þar sem kórónuveirpróf sem hann fór í fyrir leikinn týndist. Án niðurstöðu úr því var Grétar Ari ekki gjaldgengur í leiknum.

Jöfnuðu á síðustu sekúndu

Vegna fjarveru Grétars Ara var svo sannarlega skarð fyrir skildi í liði Nice. Samherji hans í markinu náði sér ekki á strik og ekki bætti úr skák að vörn liðsins var ekki sannfærandi. Til að bæta gráu ofan á svart þá jöfnuðu leikmenn Sarrebourg metin á síðustu sekúndunni áður en lokaflautið gall við.


Grétar Ari tognaði á ökkla í leik við Sélestat fyrir páskana. Það kom ekki í veg fyrir að hann ætti stórleik með ríflega 50% markvörslu á 40 mínútum. Þrátt fyrir tognunina átti Grétar Ari að vera í leikmannhópi í kvöld enda sagðist hann vera klár í slaginn í samtali við handbolta.is.

Án niðurstöðu – enginn leikur


„Ég átti að vera á bekknum til vara en á einhvern hátt tókst einhverjum að týna covid PCR prófinu mínu sem allir þurfa að taka fyrir hvern leik. Ég mátti ekki spila útaf því að niðurstaðan lá ekki fyrir,“ sagði Grétar Ari sem var eðililega vonsvikinn enda í harðri keppni með liðinu um sæti í úrslitakeppninni. Í hana komast liðin sem hafna í öðru til og með sjötta sæti. Til viðbótar er Grétar Ari í efsta sæti yfir flest skot varin að meðaltali í leik af öllum markvörðum deildarinnar. Hann er því í harðri keppni á tvennum vígstöðvum enda mikill keppnismaður.

Erfitt að kyngja þessu

„Þetta er frekar furðulegt mál og pínu erfitt að kyngja því vegna þess að ég var að keppa um að vera með flestar vörslur yfir tímabilið. Ég var efstur fyrir leikinn en nú virðist ég eiga minni möguleika á að vinna þann titil. Ásamt því að baráttan um sæti úrslitakeppni er mjög hörð og þessi tvö stig voru mikilvæg í þeirri baráttu,“ sagði Grétar Ari við handbolta.is.

Nice er í sjöunda sæti þegar liðið á fimm leiki eftir. Massy Essonne er í sætinu fyrir ofan með stigi meira og hefur leikið einum leik færra en Nice. Dijon er í fimmta sæti með þremur stigum fleiri en Nice og á einnig fimm leiki eftir. Nice sækir Massy Essonne heim á laugardaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -