Ragnarsmótið: HK og Aftureldingu fögnuðu í Iðu

Katrín Helga Davíðsdóttir og liðsfélagar í Aftureldingu unnu Gróttu á Ragnarsmótinu í kvöld. Mynd/Raggi Óla

HK hefur unnið báða leiki sína á Ragnarsmóti kvenna í handknattleik í Iðu á Selfossi. Í kvöld vann Kópavogsliðið sannfærandi sigur á ungu og efnilegu liði Selfoss, 34:19, í fyrri viðureign kvöldsins. Í síðari leiknum sem á dagskrá var lagði Aftureldingu lið Gróttu, 26:21, í kaflaskiptum leik.


Ragnarsmótinu lýkur á föstudagskvöldið, annarsvegar með leik Selfoss og Gróttu og hinsvegar viðureign Olísdeildarliðanna HK og Aftureldingar. HK hefur fjögur stig, Selfoss og Aftureldingu tvö hvort en Grótta er enn án stiga.

Ivanauskaité fór meidd af leikvelli

Selfossliðið átti í fullu tré við HK framan af viðureigninni í kvöld. Upp úr miðjum hálfleik var aðeins eins marks munur, 8:7, HK í vil. Um það leyti varð Selfossliðið fyrir áfalli þegar hin öfluga Roberta Ivanauskaité meiddist. Kom hún ekkert meira við sögu það sem eftir var leiks. Ivanauskaité kom til Selfossliðsins í sumar og styrkir það mjög, jafnt í vörn sem sókn.


Eftir þetta kom skýr munur fram á liðunum. HK hefur úr talsverðum hópi efnilegra og góðra leikmanna sem Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari, var óhræddur að tefla fram. Selfossliðið reyndi hvað það gat en átti við ofurefli að etja.


Afturelding var sterkari í fyrri hálfleik gegn Gróttu og var með átta marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:9. Leikur liðanna leystist upp í síðari hálfleik og allir leikmenn á skýrslu fengu að spreyta sig um lengri eða skemmri tíma og jafnvel að leika í óhefðbundnum stöðum. Aðeins dró saman með liðunum þegar á leið en sigur Aftureldingar var aldrei í hættu.


HK – Selfoss 34:19 (17:8).
Mörk HK: Tinna Sól Björgvinsdóttir 9, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 7, Karen Kristinsdóttir 4, Lovísa Helenudóttir 3, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Elna Guðjónsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Þóra María Sigurjónsdóttir 1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1.
Mörk Selfoss: Tinna Sigurrós Traustadóttir 9, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 4, Kristín Una Hólmarsdóttir 3, Roberta Ivanauskaité 1, Ragnheiður Grímsdóttir 1, Emilía Ýr Kjartansdóttir 1.


Afturelding – Grótta 26:21 (17:9).
Mörk Aftureldingar: Katrín Davíðsdóttir 5, Susan Ines Gamboa 3, Elín Sigurðardóttir 3, Sylvía Blöndal 3, Viktoría McDonald Þorkelsdóttir 2, Ólöf Marín Hlynsdóttir 2, Lára Ívarsdóttir 2, Telma Rut Frímannsdóttir 2, Brynja Rögn Ragnarsdóttir 1, Drífa Garðarsdóttir 1, Anna Katrín Bjarkadóttir 1.
Mörk Gróttu: Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Katrín Scheving 3, Guðný Hjaltadóttir 3, Rut Bernódusdóttir 3, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 2, Valgerður Helga Ísaksdóttir 1, Lilja Hrund Stefánsdóttir 1, Helga Dögg Þorsteinsdóttir 1, Dagný Lára Ragnarsdóttir, 1, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 1.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -