- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rann blóðið til skyldunnar

Þórir Ólafsson er þess albúinn að taka við þjálfun karlaliðs Selfoss. Mynd/UMFSelfoss
- Auglýsing -

„Þetta kom skyndilega upp og tíminn var ekki mikill til þess að gera upp hug sinn, hnýta alla enda því ég þurfti að sjálfsögðu að ræða við fjölskyldu, vinnuveitanda og leikmenn og fleiri sem málið varðar. Þegar þessu var lokið þá ákvað ég að taka slaginn,“ sagði Þórir Ólafsson fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik sem var ráðinn þjálfari karlaliðs Selfoss undir lok síðustu viku.


Ráðningu Þóris bar brátt að eftir að Halldóri Jóhanni Sigfússyni stóð til boða að verða annar þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Tvis Holstebro. Þórir hefur ekki áður þjálfað lið í efstu deild karla en komið nærri þjálfun yngri flokka og U-liðs Selfoss. „Ég er spenntur fyrir að takast á við þetta verkefni. Ég hlakka til að vinna með strákunum og leggja um leið mitt af mörkum til félagsins. Ég er fullur tilhlökkunar,“ sagði Þórir.

Þórir Ólafsson er 42 ára gamall. Hann lék með Selfoss í meistaraflokki fram til ársins 2002. Eftir það var hann leikmaður Hauka frá 2002 til 2005. Sumarið 2005 gekk Þórir til liðs við TuS Nettelstedt-Lübbecke í Þýskalandi og lék með liði félagsins í sex ár. 

Árið 2011 samdi Þórir við pólska meistaraliðið Vive Targi Kielce og varð þar með fyrsti Íslendingurinn sem varð atvinnumaður í handknattleik í Póllandi. Þórir lék með Vive Targi Kielce í þrjú ár og varð m.a. pólskur meistari öll árin og hlaut bronsverðlaun í Meistaradeild Evrópu með liðinu vorið 2013.

Þórir flutti heim til Íslands 2014 og lék í eitt tímabil með Stjörnunni áður en hann rifaði seglin.

Árið 2001 var Þórir fyrst valinn í landsliðshóp til æfinga. Frá 2006 til 2014 tók Þórir þátt í EM 2006, 2012 og 2014 var með á HM 2011 og 2013. Alls lék Þórir 112 landsleiki, þar af 33 á stórmótum. Landsliðsmörkin eru 277, þar af 83 á stórmótum.

Kom snöggt upp – ekki margir kostir

„Brotthvart Halldórs kom snögglega upp og stutt þangað til nýtt tímabil hefst. Kostirnir voru kannski ekki margir fyrir stjórnendur Selfoss þegar þeir stóðu frammi fyrir því að leita að nýjum þjálfara. Þess vegna vildi ég gera það sem ég gat fyrir félagið mitt þegar þessi staða kom upp. Mér rann blóðið skyldunnar,“ sagði Þórir léttur í bragði.

Var ekki í kortunum

Spurður hvort það hafi blundað í Þóri allt síðan að hann var atvinnumaður í handknattleik að fara út í þjálfun segir Þórir svo ekki vera. „Ég velti þessu aldrei fyrir mér meðan ég var úti. Eftir að ég kom heim þá leiddist maður fljótt inn í að hjálpa til og vera aðstoðarþjálfari auk þess að vera með yngri og u-lið. Eitt leiðir að öðru.“

Skýrist á næsta ári

„Ég neita því ekki að þegar liðið hefur á tímann hér heima þá hefur það aðeins kitlað mig að prófa einn daginn ef tækifæri gæfist til að þjálfa meistaraflokk þar sem maður hefur í höndum ákveðinn kjarna sem hægt að móta svolítið eftir sínum hugmyndum. Nú fékk ég tækifærið og þess vegna var ekkert annað að gera en að láta slag standa. Á næsta ári kemur væntanlega í ljós hvort þetta sé eitthvað sem á við mig,“ sagði Þórir Ólafsson nýráðinn þjálfari karlaliðs Selfoss í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -