Rasimas var í stuði gegn botnliðinu í Hleðsluhöllinni

Vilius Rasimas, markvörður Selfoss t.v. Mynd/ Selfoss/SÁ

ÍR-ingar töpuðu sínum sextánda leik í Olísdeild karla í handknattleik í dag þegar þeir sóttu leikmenn Selfoss heim í Hleðsluhöllina á Selfossi, 28:23. Fátt virðist geta komið í veg fyrir að ÍR-ingar kveðji deildina í vor eftir erfitt tímabil. Liðið á sex leiki eftir og þurfa leikmenn liðsins heldur betur að sækja í sig veðrið á endasprettinum til þess að eiga einhverja von.


Selfoss-liðið heldur sínu striki á róli um miðja deild í hópi annarra liða með 18 stig og verður að halda vel á spilunum á endasprettinum til þess að ná sæti í úrslitakeppninni. Fá stig skilja liðin að frá þriðja til níunda sæti og ljóst að víða mun sjóða á keipum við róðurinn á næstu vikum.


Vilius Rasimas, markvörður Selfoss-liðsins, átti enn einn stórleikinn. Hann varði allt hvað af tók og reyndist leikmönnum ÍR óþægur ljár í þúfu. Hann varði 17 skot sem lagði sig út á nærri 44% hlutfallsmarkvörslu.


ÍR-ingar héldu í við leikmenn Selfoss á fyrstu 20 mínútum leiksins. Eftir það skildu leiðir og því miður var leikurinn aldrei spennandi þegar kom fram í síðari hálfleik. Fjögurra marka munur var að loknum fyrri hálfleik, 13:9.


Mörk Selfoss: Hergeir Grímsson 7/3, Atli Ævar Ingólfsson 7, Einar Sverrisson 5, Tryggvi Þórisson 2, Ragnar Jóhannsson 2, Gunnar Flosi Grétarsson 2, Magnús Öder Einarsson 1, Andri Dagur Ófeigsson 1, Arnór Logi Hákonarson 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 17, 43,6% – Sölvi Ólafsson 0.
Mörk ÍR: Dagur Sverrir Kristjánsson 7, Úlfur Gunnar Kjartansson 5, Ólafur Haukur Matthíasson 5, Bjarki Steinn Þórisson 2, Hrannar Ingi Jóhannsson 1, Gunnar Valdimar Johnen 1, Viktor Sigurðsson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 3, 16,7% – Óðinn Sigurðsson 3, 20%.


Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -