Reglur um bíkinibuxur verða endurskoðaðar

Norska kvennalandsliðið í strandhandknattleik í buxum umdeildu sem þær voru sektaðar fyrir að klæðast í kappleikjum. Mynd/FB-síða norska handknattleikssambandsins

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, segir að til greina komi að breyta reglum um klæðnað kvenfólks í strandhandknattleik. Þetta segir í tilkynningu frá EHF eftir að það sektaði norska kvennalandsliðið fyrir að hlýta ekki reglum í síðasta leik sínum á Evrópumeistaramótinu í strandhandknattleik á síðasta sunnudag.


Norska landsliðið var sektað um liðlega 200 þúsund krónur fyrir að leika ekki í bíkinibuxum og kjósa fremur að leika í stuttbuxum. Norska handknattleikssambandið hefur lýst yfir fullum stuðningi við landslið sitt og segir í tilkynningu sambandsins að það sé stolt yfir frammistöðu síns liðs utan vallar sem innan.


Norska handknattleikssambandið og landsliðið nýtur opinbers stuðnings frá handknattleikssamböndum Dana, Svía og Frakka í kröfum sínum um breytingu á reglum um klæðnað.


EHF segir í yfirlýsingu sinni í fyrradag að á næstunni verði farið yfir reglur um keppnisbúninga í strandhandbolta. Verður það gert í samvinnu við Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, enda taki reglur EHF mið að reglum alþjóða handknattleikssambandsins. EHF segir ennfremur að búningamálið hafi verið rætt á þingi EHF í apríl að frumkvæði Norðmanna. Samþykkt hafi verið á þinginu að vísa málinu áfram til strandblaksnefndar EHF sem kemur saman í ágúst.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -