Reiknar með hörkuleikjum

„Ég man varla eftir hvenær síðustu landsleikir voru og þess vegna er ánægjulegt að loksins sé farið að hilla í leiki,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir landsiðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is rétt í þann mund sem íslenska landsliðið hélt af landi brott í byrjun vikunnar áleiðis til Skopje í Norður-Makedóníu þar sem það hefur þátttöku á morgun í forkeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik.


Fyrsti leikur Íslands verður á morgun gegn Norður-Makedóníu og síðan taka við leikir gegn Grikkjum á laugardaginn og við Litháa á sunnudag. Tvö lið af fjórum fara áfram í umspil um sæti á HM í desember en tvö lið sitja eftir.


Birna segir það hafa verið gott upplegg fyrir leikina þrjá sem framundan eru á morgun, laugardag og á sunnudag að mæta snemma á leikstað og hafa þar af leiðandi góðan tíma til undirbúnings. Leggja verði allt í sölurnar til þess að verða annað af tveimur liðum sem komast áfram í umspilsleikina sem fram fara í síðla í næsta mánuði.

Umspil fyrir HM 2021
Ísland var síðast með í umspili fyrir HM 2019.
Það umspil fór einnig fram í Skopje og þá í
byrjun desember 2018. Ísland tapaði
fyrir Norður-Makedóníu, 29:21, en vann 
landslið Tyrklands og Aserbadjsan og fór
áfram í umspilsleiki vorið 2019 á móti
Spánverjum. Þær viðureignir töpuðust. 
Birna Berg Haraldsdóttir á einni af æfingum íslenska landsliðsins í Skopje í vikunni. Mynd/HSÍ

Helmingur íslenska hópsins sem er í Skopje tók þátt í síðustu mótsleikjum íslenska landsliðsins í lok september 2019. Þrátt fyrir breytingar segir Birna að ákveðinn kjarni sé fyrir hendi sem verði að byggja á.


„Við notuðum tímann vel í æfingabúðunum í síðustu viku. Þá unnum við í byggja upp 5/1 vörn okkar en einnig verðum við með 6/0. Liðið hefur nokkrar útfærslur jafnt í vörn sem sókn sem við getum gripið til. Nokkrar breytingar hafa orðið á 5/1 vörn okkar frá því að Axel Stefánsson var landsliðsþjálfari. Þessi vörn þarf að ganga vel upp því hún getur tekið á sig hræðilega mynd ef ekki gengur vel. Við höfum náð nokkrum góðum æfingum og hef ekki áhyggjur af því að hlutirnir muni ekki smella saman hjá okkur að þessu sinni,“ sagði Birna Berg sem á að baki 58 A-landsleiki.

Erum með gott lið

„Við þekkjum aðeins til landsliðs Norður-Makedóníu en við töpuðum illa fyrir þeim í síðustu forkeppni HM. Væntanlega er það sterkasta lið riðilsins. Litháen er einnig með gott lið. Ég reikna bara með hörkuleikjum. Ég er mjög spennt fyrir þessu. Markmiðið er að komast áfram. Mér finnst við vera með gott lið sem á heima annarstaðar en í forkeppni. Ég er ánægð með Arnar Pétursson þjálfara. Hann hefur komið inn með flottar áherslur í leikinn sem gæti verið skref í rétta átt,“ segir Birna Berg Haraldsdóttir.

 
Leikir Íslands í forkeppninni:
19.mars kl. 16, Ísland – Norður-Makedónía.
20.mars kl. 18, Ísland – Grikkland.
21.mars kl. 18, Ísland – Litháen.
 
Öllum leikjum íslenska landsliðsins verður
streymt á heimasíðu Handknattleiks-
sambands Norður-Makedóníu. 
Handbolti.is hefur hug á að nýta sér 
streymið sé þess nokkur kostur. 
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -