Reis upp af höfuðhöggi og heilahristingi og skaut Víking í kaf

Leikmenn Víkings og Harðar mættust öðru sinni í umspili í dag. Mynd/Víkingur

Hörður á Ísafirði knúði fram oddaleik í viðureign sinni við Víking í undanúrslitum umspilsins um sæti í Olísdeild karla með sigri í annarri viðureign liðanna í íþróttahúsinu á Torfnesi í kvöld, 31:30, í hörkuleik. Oddaleikurinn verður í Víkinni á þriðjudagskvöld.

Athyglisvert er að Endijs Kusners, sem hlaut svo þungt höfuðhögg í kappleik fyrir um hálfum mánuði að ekki var reiknað með að hann léki handknattleik á ný næstu mánuði, tók galvaskur þátt í leiknum í kvöld og skoraði 10 mörk. Hann var markahæstur hjá Herði ásamt Raivis Gorbunovs.


Ekki nóg með að höfuðhöggið hafi verið þungt og með tilheyrandi heilahristingi heldur gekk kjálki Kusners til við höggið, eins og lesa má í meðfylgjandi frásögn. Kusners hefur sannarlega og sem betur fer fengið skjótan og góðan bata. Kannski er það ekki tilviljun að leikið er á hvítasunnudegi.


Eftir tvíframlengdan leik í Víkinni á miðvikudagskvöld þar sem Víkingur fór naumlega með sigur úr býtum var viðureign liðanna á Ísafirði í kvöld ekki síður jöfn og spennandi. Heimamenn í Herði voru marki yfir í hálfleik, 16:15. Vart mátti sjá á milli liðanna en þetta var þriðji leikur þeirra á rúmlega viku en þau áttust einnig við í lokaumferð Grill 66-deildarinnar á föstudaginn fyrir rúmri viku.


Mörk Harðar: Endijs Kusners 10, Raivis Gorbunovs 10, Jón Ómar Gíslason 3, Óli Björn Vilhjálmsson 2, Sudario Eidður Carneiro 2, Daníel Wale Adeleye 2, Aleksa Stevanovic 1, Tadeo Ulises Salduna 1.
Mörk Víkings: Hjalti Már Hjaltason 6, Jóhannes Berg Andrason 6, Arnar Gauti Grettisson 6, Styrmir Sigurðsson 5, Logi Snædal Jónsson 3, Guðjón Ágústsson 3, Ólafur Guðni Eiríksson 1.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -