- Auglýsing -
- Auglýsing -

Risastór áfangi fyrir félagið

Elvar Ásgeirsson t.v. ásamt samherja sínum Marko Curcic. Mynd / Grand Nancy Handball
- Auglýsing -

„Það er risastór áfangi fyrir félagið sem lengi hefur verið stefnt að. Enda eru allir í skýjunum hjá Nancy,“ sagði Elvar Ásgeirsson, handknattleiksmaður í Frakklandi, í samtali við handbolta.is í dag. Lið hans tryggði sér sæti í efstu deild franska handknattleiksins á laugardaginn með eins marks sigri á Pontault í umspili, 26:25.

Glaðbeittir leikmenn og forráðamenn Nancy eftir að sæti í efstu deild á næstu leiktíð var í höfn. Mynd/Nancy


Eftir leit á netinu þá lítur út fyrir að Nancy hafi alltént ekki átt sæti í efstu deild síðasta aldarfjórðunginn, hið minnsta. Engan skal því undra að glatt sé á hjalla í herbúðum liðsins sem ætlað sér upp en mörg ljón voru í veginum m.a. kórónuveiran og meiðsli lykilmanna sem varð þess m.a. valdandi að Elvar var fenginn til liðsins frá Stuttgart í Þýskalandi í byrjun febrúar.

„Við töpuðum leik á lokasprettinum sem við héldum að hefði spillt verulega möguleikum okkar. Þegar upp er staðið þá skipti tapið ekki máli. Við vorum alltaf að fara í umspilið hvort sem er. Leiðin varð hinsvegar torsóttari en við skiluðum okkur í mark að loknum sem var aðalatriðið,“ sagði Elvar en ásamt Nancy tekur Saran sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili en Saran varð deildarmeistari.

Allir vildust forðast Pontault

Leikmenn Pontault sem taldir voru hvað sigurstranglegastir í deildinni sátu eftir með sárt ennið. „Liðin í umspilinu vildu forðast Pontault sem þótti vera öflugasta liðið. Við áttum bara flottan leik gegn þeim á laugardaginn. Eftir viðureign við Pontault fyrir nokkrum vikum þá fundum við að liðið var ekkert mikið betra en sum önnur lið deildarinnar. Við gætum þar af leiðandi alveg átt í fullu tré við þá ef við næðum okkar besta leik,“ sagði Elvar.

Vörn og markvarsla

Það blés þó ekki byrlega í hálfleik í viðureigninni við Pontault í umspilsleiknum. Nancy var þremur mörkum undir, 14:11, eftir fyrri hálfleik. „Okkur tókst að læsa vörninni í seinni hálfleik og markvörðurinn sem við fengum frá Noregi [Kristijan Juricic] fyrir nokkrum vikum átti mjög góðan dag. Vörn og markvarsla reið baggamuninn,“ sagði Elvar.

Fullkomin niðurstaða

Elvar segist vera í sjöunda himni með að fyrir dyrum standi að leika í efstu deild franska handknattleiksins á næsta keppnistímabili. Hann hafi ákveðið að söðla um og færa sig yfir í næst efstu deild í Frakklandi úr efstu deild í Þýskalandi snemma árs með það að markmiði að fara upp. Hinsvegar lá fyrir frá upphafi að það gæti brugðið til beggja vona. „Þessi niðurstaða er fullkomin eftir hliðarskrefið sem ég tók.“

Erfiður tími að baki

Framundan eru spennandi tímar hjá Elvari og fjölskyldu á næsta tímabili sem verður vonandi með öðrum brag en það sem er nú að baki. Flutningur frá Þýskalandi og kórónuveiran og hálfgerð einangrun í nýju landi hefur reynt á alla til viðbótar við að Elvar smitaðist af veirunni í lok apríl þegar hún lék lausum hala innan Nancy-liðsins. Hann segir það verða kærkomið að koma í frí heim til Íslands á morgun en verið var að pakka niður í töskur í dag þegar handbolti.is sló á þráðinn.


„Við hlökkum til að komast heim og hitta fjölskyldur okkar. Það verður æðislegt,“ sagði Elvar Ásgeirsson handknattleiksmaður hjá Nancy.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -