- Auglýsing -
- Auglýsing -

Risastórt skref fyrir KA/Þór

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs fer yfir málin í einum leikjum tímabilsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það var sætt að klára þetta. Við sýndum ótrúlegan karakter í síðari hálfleik eftir að hafa leikið illa í þeim fyrri það sem við vorum alltaf á eftir,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari nýbakaðra deildarmeistara KA/Þórs í Olísdeild kvenna, þegar handbolti.is náði tali af honum eftir að titillinn var í höfn í kjölfar jafnteflis Fram og KA/Þórs, 27:27, í lokaumferð Olísdeildar í Framhúsinu í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem lið frá Akureyri verður deildarmeistari í handknattleik kvenna. Í upphafi tímabilsins braut KA/Þór-liðið blað með sigri í Meistarakeppni HSÍ í fyrsta sinn.


„Það er risastórt skref fyrir KA/Þór að vinna deildina því hún hefur sennilega ekki verið jafnari og betri árum saman en á þessu keppnistímabili. Við erum stolt af tímabilinu og árangrinum þar sem liðið hefur leikið einstaklega vel, jafnt og þétta alla leiktíðina,“ sagði Andri Snær sem tók við þjálfun KA/Þórs á síðasta sumri. Um er að ræða frumraun hans í þjálfun meistaraflokksliðs. Andri leikur með KA-liðinu í Olísdeild karla.

Myndasyrpa af sigurgleðinni í Framhúsinu hjá Akureyri.net.

Sannir keppnismenn

Andri Snær segir lið sitt hafa toppað á réttum tíma því síðari hálfleikur hafi verið sá besti sem liðið hefur sýnt á keppnistímabilinu. „Toppurinn kom á réttum tíma. Við vorum með sjálfstraust. Stelpurnar eru allar miklir keppnismenn sem gefast aldrei upp. Það er gaman að þjálfa liðið því leikmenn eru tilbúnir að vaða eld og brennistein til að ná framförum og árangri. Þetta eru alvöru karakterar,“ sagði Andri.

Hafa ekki fengið nóg

Framundan er úrslitakeppnin þar sem KA/Þór situr yfir í fyrstu umferð eins og Fram. Andri segir ekkert annað koma til greina en að fylgja deildarmeistaratitlinum með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn í framhaldinu. „Úrslitakeppnin verður spennandi. Í henni getur allt gerst eins og við þekkjum. Framundan er taumlaus skemmtun fyrir handboltaáhugafólk hér á landi.“

Góðar móttökur á Akureyrarflugvelli – myndasyrpa á Akureyri.net.

Í leiknum í gær átti KA/Þórsliðið á köflum erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik. Andri sagði kaflaskipti hafa átt sér stað í þeim síðari. „Framliðið lék mjög vel í fyrr hálfleik. Við náðum ekki að brjóta nógu mikið á þeim og fengum alltof fá fríköst, svo dæmi sé tekið,“ sagði Andri Snær en lið hans var fimm mörkum undir að loknum fyrri hálfleik og öll stemning með Fram-liðinu. „Við fórum vel yfir okkar mál í hálfleik. Ákváðum að leika framar í vörninni og koma út í skytturnar. Um leið og það tókst þá fengum við fleiri stopp, markvarslan batnaði og þá jókst sjálfstraustið jafnt og þétt.

Sóknarleikurinn var góður allan leikinn. Varnarleikurinn í síðari hálfleik var hinsvegar sá besti sem ég hef séð frá KA/Þórsliðinu á keppnistímabilinu,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari deildarmeistara KA/Þórs í handknattleik kvenna.

Lokastaðan í Olísdeild kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -