Roland tvöfaldur meistari með Motor

Lands- og bikarmeistarar Motor Zaporizjzja í Úkraínu. Roland Eradze er annar frá hægri í efri röð með Savukynas Gintras sér til vinstri handar. Mynd/Aðsend

Roland Eradze, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands og þjálfari, varð í gær úkraínskur bikarmeistari í handknattleik karla með Motor Zaporozhye. Motor vann Donbass, 27:24 í úrslitaleik.

Roland er fyrsti Íslendingurinn til þess að verða lands-, og bikarmeistari í handknattleik í Úkraínu. Hann kom inn í þjálfarateymi liðsins á síðasta sumri þegar góðkunningi margra íslenskra handboltamanna og áhugamanna, Savukynas Gintaras , tók við þjálfun Motor-liðsins. Gintaras  lék um árabil hér á landi með Aftureldingu við góðan orðstír og þjálfaði einnig hér á landi m.a. ÍBV.

Auk þess að vera hægri hönd Gintaras þá hefur Roland haft þjálfun markvarða liðsin á sinni könnu. Í svari við skilaboðum handbolta.is í morgun sagðist Roland reikna með að vera áfram hjá Motor næsta keppnisár þótt það væri æði langt frá Íslandi þar sem fjölskylda hans býr. Dóttir Rolands, Mariam, leikur með Val og lék með íslenska landsliðinu í vor gegn Slóvenum í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Roland Eradze og Savukynas Gintaras glaðir í bragði. Mynd/aðsend

Bikarmeistarartitillinn er enn ein skrautfjöðrin í hnappagat þjálfara og leikmanna Motor Zaporozhye á tímabilinu því nýverið varð liðið úkraínskur meistari. Til viðbótar stóð Motor Zaporozhye sig afar vel í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni og hafnaði í fimmta sæti af átta liðum í sínum riðli. Motor lék í 16-liða úrslitum sem er besti árangur liðsins í keppninni.  Einnig stóð liðið í ströngu í Austur-Evrópudeildinni, SEHA-League.

Motor Zaporozhye varð nú meistari í áttunda sinn í Úkraínu og í sjöunda sinn bikarmeistari.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -