- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sá fjórði í fjölskyldunni sem tekur þátt í EM

Darri Aronsson á æfingu landsliðsins í handknattleik í gær. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Með þátttöku á Evrópumótinu í handknattleik fetar Darri Aronsson í fótspor föður síns, Arons Kristjánssonar, og móðurbróður síns, Gústafs Bjarnasonar, sem báðir hafa leikið með íslenska landsliðinu í lokakeppni Evrópumóts. Annar frændi Darra, Haukur Þrastarson, var í EM-liðinu fyrir tveimur árum.


Aron var í íslenska landsliðinu sem komst í undanúrslit á EM 2002 í Svíþjóð undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar núverandi landsliðsþjálfara. Íslenska liðið hafnaði í fjórða sæti.


Aron lék alla átta leiki Íslands í mótinu og skoraði 12 mörk í átta leikjum. Þrálát meiðsli í hné komu í veg fyrir að hann kom til greina í landsliðshópinn á EM tveimur árum síðar.


Gústaf var í liðinu á EM 2002 og tók þátt í fjórum leikjum og skoraði fimm mörk. Gústaf var einnig í EM-liðinu tveimur árum áður þegar mótið var haldið í Króatíu. Þá skoraði hann sex mörk í átta leikjum.


Alls lék Aron, faðir Darra 85 A-landsleiki, og skoraði í þeim 128 mörk. Síðar var Aron landsliðsþjálfari frá 2012 til 2016 og stýrði landsliðinu í tvígang í lokakeppni EM, 2014 og 2016. Á mótinu 2014 hafnaði íslenska landsliðið í fimmta sæti sem er þriðji besti árangur íslenska landsliðsins á EM.


Móðir Darra, Hulda Bjarnadóttir, tók þátt í 33 A-landsleikjum og skoraði 48 mörk. Hún tók aldrei þátt í lokakeppni EM með landsliðinu.

Sem fyrr segir var Haukur Þrastarson í EM-hópi Íslands á mótinu fyrir tveimur árum og lék sex leiki og skoraði sex mörk. Haukur og Darri eru systrasynir.

Viðureign Íslands og Króatíu í þriðju umferð Evrópumótsins í handknatteik hefst klukkan 14.30.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -