Sá rautt í Dijon

Elvar Ásgeirsson leikmaður Nancy í Frakklandi. Mynd/Nancy

Elvar Ásgeirsson mætti til leiks með Nancy í kvöld eftir að hafa orðið af síðasta leik liðsins sökum þess að hafa ekki fengið grænt ljós til þátttöku. Elvar var minna með í kvöld en efni stóðu til um þegar Nancy vann Dijon með eins marks mun í frönsku B-deildinni á útivelli, 30:29.


Elvar braut klaufalega af sér eftir 22 mínútur og fékk rautt spjald. Hann hafði þá skorað eitt mark, átt tvær stoðsendingar og unnið eitt vítakast.
Sigurinn var mikilvægur fyrri Nancy sem á enn veika von um annað sæti deildarinnar eftir að Pontault tapaði fyrir Saran, 29:23, í uppgjöri tveggja efstu liðanna.

Saran komst með sigrinum í toppsætið með 41 stig þegar liðið á einn leik eftir. Nancy er í þriðja sæti með 34 stig en á tvo leiki óleikna. Pontault er með 40 stig. Liðin í þriðja til sjötta sæti fara í umspil svo það er eftir nokkru að slægjast í þriðja sæti.


Stórleikur verður á heimavelli í Nancy á föstudaginn þegar efsta liðið, Saran, kemur í heimsókn.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -