„Samkeppnin á toppnum harðnar sífellt“

Guðmundur Þórður Guðmundsson ræðir við liðsmen MT Melsungen í æfingaleik áður en tímabilið hófst. Mynd/MT Melsungen

„Undirbúningurinn hefur verið knappur af ýmsum ástæðum. Þar af leiðandi eigum við svolítið í land ennþá,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari þýska 1. deildarliðsins MT Melsungen þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans.

Guðmundur Þórður er að hefja sína aðra heilu leiktíð sem þjálfari Melsungen-liðsins sem hann tók við þjálfun á í lok febrúar 2020, um það leyti sem kórónuveirufaraldurinn sprakk út í Evrópu.

Upphafsleikirnir verða erfiðir

„Við erum að berjast við að koma okkur saman áður en deildin hefst í næstu viku. Upphafsleikirnir verða erfiðir. Við byrjum gegn Lemgo, því næst mætum við meisturum Kiel og síðan Füchse Berlin í þriðju umferð,“ sagði Guðmundur Þórður sem fór til Þýskalands í byrjun ágúst og hóf þá undirbúning með liðinu.

Alexander Petersson er klár í slaginn með Melsungen. Mynd/MT Melsungen

Vantaði þessa menn

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Melsungen frá síðustu leiktíð. Alexander Petersson, Elvar Örn Jónsson og Portúgalinn André Gomes bættust í hópinn í sumar. Sá síðarnefndi er reyndar meiddur um þessar mundir. Guðmundur segir að koma þremenninganna auki á breiddina í leikmannahópnum. „Okkur vantaði þessa menn í útilínuna hjá okkur auk þess sem Lexi er hörku varnarmaður sem getur leyst ákveðnar stöður hjá okkur í sóknarleiknum. Þess utan er Lexi afar reynslumikill og frábær liðsmaður.

Elvar Örn Jónsson í uppstökki í leik á dögunum. Mynd/MT Melsungen


Elvar Örn hefur farið vel af stað með okkur. Hann leikur mjög stórt hlutverk í vörninni þar sem hann verður í hjarta varnarinnar auk þess að vera fremsti maður í 5/1 vörn sé því að skipta.“

Fleiri um hituna

Guðmundur Þórður segir að liðin í þýsku 1. deildinni styrkist ár frá ári sem valdi því að fleiri hafi burði til þess að vera í efstu sex sætunum sem gefa þátttökurétt í Evrópukeppni. „Samkeppnin á toppnum harðnar sífellt. Þróunin er einfaldlega sú.“

Vonandi með öðrum brag

Eftir kórónuveirutímabilið í fyrra með öllum þeim stoppum sem þá voru og leikjum án áhorfenda binda menn vonir við að keppnistímabilið framundan verði með öðrum brag. Áhorfendur hafa mætt á leiki í æfingamótum í síðustu vikurnar og félögin gera ráð fyrir að taka á móti áhorfendum í verulegu mæli þótt ekki verði allar keppnishallir fullar af áhorfendum eins og fyrir faraldurinn.

Reiknað með allt að 4.500 áhorfendum

„Stefnan er sú að taka á móti áhorfendum hvað svo sem verður. Útlitið í þeim efnum er ágætt núna. Við reiknum með að taka á móti allt að 4.500 áhorfendum á heimaleiki okkar til að byrja með. Kiel gerir sér vonir um að vera með 9.000 áhorfendur í sinni stóru keppnishöll, svo dæmi sé tekið.“

Arnar Freyr Arnarsson er að hefja sitt annað keppnistímabil með Melsungenliðinu. Mynd/MT Melsungen


Guðmundur vonast til að hægt verði að leika deildarkeppninni án truflunar vegna veirunnar en á síðasta tímabili þegar Melsungen-liðið fór til dæmis ítrekað í 14 daga sóttkví vegna smita eins eða tveggja manna í hópnum.

Ekki dæmt af síðasta tímabili

„Liðið mitt verður ekki dæmt af síðasta keppnistímabili. Nú er bjartara yfir vegna faraldursins. Óskandi er að okkur takist að leika deildina eins áfallalítið og kostur er. Síðasta tímabil var ekkert eðlilegt og því lauk ekki fyrr en 28. júní,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari þýska liðsins Melsungen og einnig þjálfari karlalandsliðsins.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -