- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sanngjarnt á Seltjarnarnesi

Stefán Huldar Sefánsson varði lokaskot Stjörnumanna, frá Degi Gautasyni, og tryggð liði sínu annað stigið gegn Stjörnunni. Ljósmynd/Grótta
- Auglýsing -

Grótta og Stjarnan skildu jöfn, 25:25, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í jöfnum leik sem verður vart minnistæður fyrir annað en jafnteflið. Bæði lið fengu tækifæri til að vinna leikinn undir lokin en allt kom fyrir ekki. Markverðir beggja liða stóðu vaktina af árverkni og jafntefli var sanngjörn niðurstaða. Grótta var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.

Liðin skiptust á að vera marki yfir fram í miðjan fyrri hálfleik þegar Gróttumenn skoruðu þrjú mörk í röð og komust tveimur mörkum yfir, 9:7. Þrátt fyrir leikhlé tókst Patreki ekki að snúa sínum mönnum í gang. Þeir voru miður sín í sóknarleiknum. Illa var skotið á markið og á tíðum ríkti agaleysi. Þess utan var Stefán Huldar Stefánsson nokkuð vel með á nótunum í marki Gróttuliðsins.

Baráttuglaðir heimamenn héldu áfram að nuddast áfram þótt hvorki hafi þeir leikið lipurlegan né skemmtilegan handbolta. En nóg til þess að halda frumkvæðinu út hálfleik þegar staðan var, 13:11. Gróttumenn voru hreinlega klaufar að vera ekki þremur mörkum yfir þegar gengið var til búningsherbergja.

Stjarnan jafnaði fljótlega í síðari hálfleik, 15:15. Eftir það var jafnt á flestum tölum áfram en því miður þá jukust gæði leiksins ekki. Mikið var um einföld mistök og misráðnar ákvarðanir. Eins og Stjörnumenn léku á tíðum vel gegn Selfoss á föstudaginn í fyrstu umferð þá voru þeir fjarri sínu besta að þessu sinni. Stjörnumenn virkuðu þungir og stundum eins og þeim þætti ekkert gaman af því sem þeir voru að gera. Kannski vegna þess að ekki gekk sem skildi.

Gróttuliðið er samansafn af baráttuglöðum mönnum sem virðast vera tilbúnir að vaða eld og brennistein en seint verður leikur liðsins sagður skemmtilegur, en hann getur verið árangursríkur. Og þannig þarf liðið sennilega að leika til þess að eiga möguleika í andstæðinga sína. Meðan Gróttumenn fá að stýra hraða leikja sinna verða þeir hættulegir.

Andri Þór Helgason og Birgir Steinn Jónsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Gróttu. Dagur Gautason skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna og Tandri Már Konráðsson fimm.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -