Sara Sif fór á kostum þegar Fram fór illa með Val

Steinunn Björnsdóttir fyrirliði Fram. Mynd/Fram

Framar fóru illa með Valsara í viðureign liðanna í Olísdeild kvenna í handknattleik í Framhúsinu í dag, 30:22. Lokatölurnar segja þó ekki alla söguna um yfirburði Fram-liðsins sem var 11 mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:8. Framarar eru þar með áfram í efsta sæti og hafa nú 14 stig eftir níu leiki. Valur er í þriðja sæti með 11 stig.


Sara Sif Helgadóttir fór á kostum í marki Fram og varði 19 skot sem gerði liðlega 46% hlutfallsmarkvörslu. Valsliðið hlýtur samt að leita að fleiri skýringum á tapinu því sóknarleikur liðsins var alls ekki upp á það besta og ekki alltaf bestu tækifærin til markskota sem voru valin. Líkt og um síðustu helgi gegn Haukum er sóknarleikurinn ekki alveg upp á það besta.


Fram-liðið skoraði fjögur fyrstu mörkin og ljóst að liðið ætlaði sér ekki að gefa þumlung eftir. Valsliðið virtist slegið út af laginu eftir kröftuga byrjun og voru nánast ekki með í leiknum það sem eftir var. Slíkir voru yfirburðir Fram-liðsins sem slakaði aðeins á klónni undir lokin, þó aldrei svo að Valur kæmist á bragðið.


Auk Söru Sifjar þá átti Steinunn Björnsdóttir stórleik fyrir Fram, jafnt í vörn sem sókn. Hún skoraði átta mörk í níu tilraunum. Hildur Þorgeirsdóttir lék sinn fyrsta leik um skeið eftir meiðsli og Stella Sigurðardóttir var í hópnum eftir fjarveru.


Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 9/3, Steinunn Björnsdóttir 8, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 5, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Karen Knútsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 19/1, 46,3%.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 7, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/3, Thea Imani Sturludóttir4, Mariam Eradze 1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1, Ída Margrét Stefánsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 11, 35,5% – Saga Sif Gísladóttir 0.

Öll tölfræði leiksins hjá HBstatz.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -