- Auglýsing -

Selfyssingar standa vel að vígi

Einar Sverrisson hefur verið óspar á þrumuskotin. Mynd/Selfoss/SÁ

Selfoss stendur vel að vígi eftir fyrri viðureignina við tékkneska liðið KH ISMM Koprivnice í fyrstu umferð Evrópukeppni bikarhafa í dag en leikið var ytra. Selfoss-liðið vann með sex marka mun, 31:25 eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 19:12. Síðari viðureign liðanna verður einnig í Koprivnice og hefst klukkan 16 á morgun.


Selfoss-liðið lagði grunninn að sigrinum með öflugum leik í fyrri hálfleik. Varnarleikur og markvarsla var góð og sóknarleikurinn hraður og skipulagður. Eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik þá hélt Selfoss-liðið uppteknum hætti í síðari hálfleik. Varnarleikurinn var afar góður og þegar 14 mínútur voru til leiksloka var munurinn kominn upp í níu mörk, 27:18. Heimamenn bitu aðeins í skjaldarrendur á lokakaflanum auk þess sem leikmenn Selfoss gerðu sig seka um fljótfærnislegar villur í sókninni.

Leikmenn Koprivnice skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins og halda þar með í ákveðna von fyrir síðari leikinn á morgun gangi þeim allt í haginn.
Miðað við leikinn í dag í 50 mínútur þá eiga leikmenn Selfoss að ljúka verkefninu á morgun og komast í aðra umferð.


Mörk Selfoss: Einar Sverrisson 7, Ragnar Jóhannsson 6, Hergeir Grímsson 5/4, Atli Ævar Ingólfsson 4, Gunnar Flosi Grétarsson 3, Ísak Gústafsson 3, Alexander Már Egan 2, Richard Sæþór Sigurðsson 1.
Vilius Rasimas varði 13 skot í marki Selfoss, þar af eitt vítakast.

Fylgst var með leiknum í textauppfærslu sem er finna hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -