- Auglýsing -

Sex leikir við Norðmenn og sumir þeirra sögulegir

Fagna leikmenn og þjálfarar íslenska landsliðsins eftir leikinn við Norðmenn í dag? Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Íslendingar og Norðmenn hafa mæst í sex skipti í lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik. Íslendingar hafa fjórum sinnum unnið en Norðmenn tvisvar, þar af síðasta þegar lið þjóðanna mættust, á EM 2020 í Malmö, 31:28. Þá voru 11 af leikmönnum núverandi landsliðshóp með í leiknum. Norska liðið réði lögum og lofum í leiknum frá upphafi til enda. Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk. Arnór Þór Gunnarsson var næstur með fjögur mörk.

Ein þessara sex viðureigna er þó sögufrægari en önnur og það er sú sem fram fór í St. Gallen í Sviss fyrir 16 árum, nánar tiltekið 2. febrúar. Þetta var lokaleikur í milliriðlakeppni og hafði ekki neina þýðingu fyrir bæði lið. Íslenska liðið hafði tapaði með eins marks mun í háspennu dramaleik fyrir Króötum tveimur dögum áður, 26:25, og þar með misst af undanúrslitalestinni. Norðmenn voru neðstir og stigalausir í riðlinum.


Eins og áður segir var leikurinn skráður í sögubækurnar þótt tilgangur hans væri ekki nema sá að ljúka riðlakeppninni. Norðmaðurinn Kjetil Strand sá til þess að leikurinn mun seint gleymast. Hann skoraði 19 mörk, þar af átta úr vítaköstum.
Setti hann markamet í leik á Evrópumóti, met sem stendur ennþá. Norðmenn unnu leikinn, 36:33. Ísland var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14. Ólafur Stefánsson skoraði níu mörk og var markahæstur í íslenska liðinu. Guðjón Valur Sigurðsson kom þar á eftir með sex mörk.

Stórleikur Arnórs

Fjórum árum síðar mættust lið þjóðanna á nýjan leik í lokaumferð milliriðlakeppninnar. Mikið var undir hjá báðum, sæti í undanúrslitum var við sjónarrönd. Í hnífjöfnum spennuleik marði íslenska liðið sigur, 35:34, í einum allra besta landsleik sem Arnór Atlason lék á ferlinum og voru þeir þó margir. Hann fór á kostum og skoraði 10 mörk og lék norsku varnarmennina grátt hvað eftir annað. Sigurinn færði íslenska liðinu sæti í undanúrslitum sem leiddi til bronsverðlauna nokkrum dögum síðar.

Tvisvar í upphafi

Tveir leikjanna við Norðmenn hafa verið upphafsleikir beggja á EM-mótum, 2014 í Álaborg og aftur tveimur árum síðar í Katowice í Póllandi. Fyrri sigurinn var upphafið að mjög góðu móti hjá íslenska liðinu sem hafnaði í fimmta sæti eftir sigur á Póllandi, 28:27, í Herning. Sigurinn í Póllandi var ekki til eins mikillar lukku. Í framhaldinu fylgdu tveir tapleikir, fyrir Króötum og Hvít-Rússum og íslenska liðið hélt heim á leið.


EM 2006 – St Gallen:
Ísland – Noregur 33:36.
EM 2010 – Vínarborg:
Ísland – Noregur 35:34.
EM 2012 – Vrsac:
Ísland – Noregur 34:32.
EM 2014 – Álaborg:
Ísland – Noregur 31:26.
EM 2016 – Katowice:
Ísland – Noregur 26:25.
EM 2020 – Malmö:
Ísland – Noregur 28:31.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -