- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sjálfstraustið er fyrir hendi

Japanski hornamaðurinn Satoru Goto skoraði fjögur mörk fyrir Gróttu gegn Val í dag. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Við vorum ekki nógu þéttir í vörninni á upphafskafla síðari hálfleiks sem varð til þess að Valsmenn skoruðu í nærri því hverri sókn. Þá misstum við Valsmenn frá okkur. Það var kannski of fljótt eftir hálfleikinn sem það gerðist. Eftir það var erfitt að ná aftur í skottið á Valsliðinu enda er það mjög gott,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, við handbolta.is í dag eftir að hans menn töpuðu með tveggja marka mun fyrir Val, 30:28, í Olísdeild karla í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi.


Eftir jafnan fyrri hálfleik þá náðu Valsmenn snemma fimm marka forskoti sem þeir héldu meira og minna til leiksloka þrátt fyrir mikla baráttu Gróttumanna. „Við vissum að leikurinn yrði erfiður og þegar upp er staðið þá finnst mér við enn einu sinni sýna baráttu og karakter auk vinnusemi leikinn út þótt vissulega hafi munurinn verið nokkuð stöðugur allan síðari hálfleikinn. Okkur tókst að laga aðeins niðurstöðuna undir lokin sem er jákvætt því það hefðu kannski einhverjir gefist upp þegar við ofurefli er að etja,“ sagði Arnar Daði en víst er að lið hans hefur komið mörgum á óvart á leiktíðinni.

Ekki verið gáfulegt

„Við erum með nýtt lið í höndunum og fórum okkur að engu óðslega í upphafi tímabilsins meðan við vorum að meta stöðuna og hvað við gætum boðið upp á. Það hefði ekki verið gáfulegt að bjóða upp á maraþonhlaup í fyrstu leikjunum og heltast úr lestinni. Við höfum jafnt og þétt byggt ofan á styrkleika okkar. Sjálfstraust er fyrir hendi innan liðsins og það býr mikið í því. Það eru ekki mörg lið sem reyna að keyra upp hraðann gegn Val. Við vildum láta reyna á það af því að við vissum að þeir yrðu í einni eða jafnvel tveimur varnarskiptingum.

Okkur tókst að svara 5/1 vörn Valsmanna í fyrri hálfleik. Snorri Steinn þjálfari Vals ætlaði að koma aftan að mér með hana eftir ummæli mín um að við værum lélegir gegn 5/1 vörn. Það gekk ekki betur en það að við leystum hana mjög vel og skoruðum ekki nema 15 mörk í fyrri hálfleik. Það býr margt í mínu liði,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu við handbolta.is í Hertzhöllinni í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -