- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sjöundi meistaratitill Arnórs í Danmörku

Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu fyrir nokkrum árum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Arnór Atlason, núverandi aðstoðarþjálfari dönsku meistaranna Aalborg Håndbold, kann vel við sig í Danmörku þar sem hann hefur búið ásamt fjölskyldu sinni árum saman. Hann hefur verið einkar sigursæll en í gær varð hann danskur meistari í sjöunda sinn, þar af þriðja árið í röð sem aðstoðarþjálfari Álaborgarliðsins sem einnig hreppti silfurverðlaun í Meistaradeild Evrópu á síðasta sunnudag.

Arnór varð fyrst danskur meistari sem leikmaður FCK í Kaupmannahöfn vorið 2008. Handknattleikslið FCK rann síðan inn í stórliðið AG Köbenhavn 2010 og með AG vann Arnór danska meistaratitilinn 2011 og 2012 þegar liðið lognaðist út af. Eftir það lék Arnór í Þýskalandi og í Frakklandi um nokkurra ára skeið uns hann flutti til Danmerkur á nýjan leik 2016 og gekk til liðs við Aalborg sem Aron Kristjánsson þjálfaði á þeim tíma.

Arnór vann danska meistaratitilinn sem leikmaður Aalborg 2017. Eftir að Arnór hætti að leika handknattleik 2018 tók hann við starfi aðstoðarþjálfara af Stefan Madsen sem ráðinn var eftirmaður Arons í stól þjálfara. Saman hafa Madsen og Arnór stýrt Aalborg til sigurs í dönsku úrvalsdeildinni 2019, 2020 og 2021 auk þess sem liðið vann Meistarakeppnina 2019 og 2020 en þar mætast meistarar og bikarmeistarar síðasta tímabils. Arnór varð einnig bikarmeistari með Aalborg 2018 sem leikmaður.

Enn er möguleiki á að bæta við verðlaunagripum í safnið því um helgina fer fram úrslitahelgi dönsku bikarkeppninnar. Aalborg mætir ríkjandi bikarmeisturum GOG sem Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður leikur með, í undanúrslitum á laugardaginn.

Mors-Thy og Skjern með Elvar Örn Jónsson innanborðs mætast í hinni undanúrslitaviðureigninni. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudag. Einnig verður leikið um bronsverðlaunin á sunnudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -