Skin og skúrir hjá Íslendingum

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach. Mynd/Nastasja Kleinjung / VfL Gummersbach

Leikmenn Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, máttu bíta í súra eplið í kvöld og tapa með eins marks mun fyrir Grosswallstadt á heimavelli, 29:28, í hnífjöfnum og spennandi leik. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 14:14.


Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach og var allt í öllu í vörninni. Þetta var aðeins annar tapleikur Gummersbach í deildinni. Liðið er eftir sem áður í öðru sæti deildarinnar með 27 stig eftir 16 leiki. HSV er efst.

Sveinbjörn Pétursson, markvörður. Mynd/EHV/Aue


Íslendingatríóið hjá EHV Aue hrósaði sigri í Westfrost-íþróttahöllinni í heimsókn til Wilhelmshavener, 25:20. Sveinbjörn Pétursson varði mark Aue í fyrri hálfleik og varði afar vel, eða 10 skot og var með 52% hlutfallsmarkvörslu. Sveinbjörn kom ekkert við sögu í síðari hálfleik. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjórum sinnum fyrir Aue sem er komið upp í áttunda sæti deildarinnar undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar. Hann er tímabundið í stól þjálfara.

Aron Rafn Eðvarðsson við öllu búinn í marki SG BBM Bietigheim. Mynd/SG BBM Bietigheim

Aron Rafn Eðvarðsson varði 16 skot, þar af þrjú vítaköst, og verður ekki sakaður um tap Bieteigheim, 24:21, í heimsókn til efsta liðsins, HSV Hamburg. Aron Rafn var með 41,3% hlutfallsmarkvörslu. Hannes Jón Jónsson þjálfar Bietigheim til enda leiktíðarinnar en lið hans var fjórum mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 13:9.


Staðan í 2. deild:
HSV Hamburg 30(17), Gummersbach 27(16), N-Lübbecke 24(16), Lübeck-Schwartau 20(16), Elflorenz 20(17), Dormagen 19(15), Dessauer 17(17), Bietigheim 16(16), Aue 15(14), Grosswallstadt 15(17), Rimpar 14(16), Hamm-Westfalen 13(14), Eisenach 13(17), Hüttenberg 13(17), Wilhelmshavener 12(17), Konstanz 11(16), Emsdetten 11(17), Ferndorf 10(15), Fürestenfeldbruck 8(18).

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -