Sneru frá vonbrigðum til sigurs

Gróttumenn höfðu ástæðu til að stíga sigursdans í kvöld eins og þeir gerðu eftir leikinn við Fram á dögunum. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Gróttumenn létu ekki hug falla þótt þeir töpuðu fyrir Þór nyrðra á sunnudaginn. Þeir dvöldu ekki lengi við vonbrigðin heldur sneru saman bökum og söfnuðu liði fyrir orrustuna í Hertzhöllinni í kvöld þegar þeir tóku á móti Fram og unnu með þriggja marka mun, 30:27, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 17:16.

Leikmennn Gróttu voru sterkari í síðari hálfleik. Þeir tóku forystuna fyrir alvöru upp úr miðjum síðari hálfleik og létu hana aldrei af hendi eftir það og unnu verðskuldaðan sigur. Varnarleikurinn var traustur og eins og oft áður á leiktíðinni þá fór markvörðurinn Stefán Huldar Stefánsson á kostum. Hann varði 22 skot, var með 45% hlutfallsmarkvörslu og munar um minna. Stefán hefur svo sannarlega stimplað sig hressilega inn í deildarkeppnina í vetur með vasklegri framgöngu í leikjum Gróttu.

Stefán Huldar Stefánsson, markvörður Gróttu, átti enn einn stórleikinn í kvöld. Mynd/Eyjólfur Garðarsson


Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 7, Daníel Örn Griffin 5, Hannes Grimm 4, Andri Þór Helgason 4, Gunnar Dan Hlynsson 4, Ólafur Brim Stefánsson 3, Satoru Goto 2, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 22, 44,9%.
Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 6, Andri Már Rúnarsson 5, Breki Dagsson 5, Kristófer Dagur Sigurðsson 3, Andar Snær Magnússon 2, Rógvi Christiansen 2, Þorvaldur Tryggvason 2, Stefán Darri Þórsson 1, Þorgrímur Smári Ólafsson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 8, 23,5% – Valtýr Már Hákonarson 1, 20%.

Öll tölfræði leiksins á HBStatz.

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, fagnaði ákaft að leikslokum eins og leikmenn hans. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -