- Auglýsing -
- Auglýsing -

Snýst fyrst og fremst um vilja til framkvæmda

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ fyrir miðri mynd. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, það koma á óvart að framkvæmdum við þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir verði seinkað. Samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var af tveimur ráðherrum og borgarstjóra í maí var stefnt á að taka höllina í notkun árið 2025. Af orðum tveggja ráðherra síðustu daga má ætla að tafir verði á framkvæmdum. Þar af leiðandi er óvissa um verklok.


„Kannski má segja að það hafi verið bratt að nefna 2025 en miðað undirbúninginn og það sem búið er að gera þá snýst málið fyrst og fremst um vilja til framkvæmda,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson.

Ekkert náttúrulögmál

Guðmundur benti á að það væri ekkert lögmál að þótt ríki og borg ætli að standa að framkvæmdinni að fjármagnið þurfi að koma að öllu leyti frá ríki og borg. „Það er hægt að frá framkvæmdaaðila til þess að sjá um bygginguna og reksturinn eins og til dæmis er gert með Egilshöllina. Það hefur gengið mjög vel.“

Næ ekki þessum yfirlýsingum

„Að ætla sér að slá þetta verkefni út af borðinu núna er að mínu mati alveg fáránlegt þar sem framkvæmdanefndin er rétt að hefja störf. Það getur alveg eins orðið niðurstaða hennar að efnt verði til útboðs um byggingu og reksturs. Ég bara næ ekki þessum yfirlýsingum,“ sagði Guðmundur og vísar þar væntanlega til orða Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudaginn og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í viðtali við RÚV í gær.

Margir lausir endar

Bjarni sagði að ekki hafi náðst samkomulag um hver eigi að byggja höllina og hver eigi hana. Fleiri endar virtust lausir að hans mati. Á meðan þannig væri í pottinn búið væri ekki tímabært að leggja til fé til framkvæmdanna af fjárlögum umfram það sem þegar er ákveðið.

Sumarið var ekki nýtt

Eftir undirritun yfirlýsingarinnar um bygginguna í maí dróst fram ágúst að skipa fyrrgreinda framkvæmdanefnd. Nefndin er undir formennsku Gunnars Einarssonar fyrrverandi landsliðsmanns í handknattleik. Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ, sem einnig var í morgunútvarpinu gagnrýndi að dregist hafi fram í ágúst að skipa nefndina og sumarið þar af leiðandi ekki verið nýtt til vinnu við undirbúning. Ekki hafi staðið á honum né Guðmundi að taka til óspilltra málanna við að vinna með nefndinni. Nú væri t.d. komið fram í seinni hluta september og enn hafi hvorki hann né formaður HSÍ verið kallaður fyrir framkvæmdanefndina til skrafs og ráðagerða eins og rætt hafi verið um.

Kapphlaup um afsakanir

Guðmundur formaður HSÍ sagði m.a. ennfremur í morgunútvarpinu að það væri eitt verkefna framkvæmdanefndarinnar að leita leiða til að fjármagana byggingu og rekstur þjóðarhallarinnar. Hann sagðist ekki átta sig á yfirlýsingum ráðamanna og kapphlaupi þeirra við að finna afsakanir til þess að hægja á verkefninu.

Ótímabærar yfirlýsingar

„Gefum framkvæmdanefndinni tóm til þess að finna leiðirnar. Þegar þær liggja fyrir getum við rætt málið verði mikill fjárskortur þegar niðurstaða liggur fyrir um hvað verði skynsamlegast að gera. En að vera að keppast við yfirlýsingarnar núna átta ég mig hreinlega ekki á,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður Handknattleikssambands Íslands í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

handbolti.is nýtur ekki opin­bers rekstr­­ar­­stuðn­­ings.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -