Spánn í úrslitum hjá körlum og konum

harpix Mynd/J.L.Long

Fáum á óvart þá mætast Egyptaland og Spánn í úrslitum handknattleikskeppni karla á Miðjarðarhafsleikunum sem standa nú yfir í Alsír en á þeim er keppt í fjölda íþróttagreina. Í kvennaflokki leikur Spánn einnig til úrslita og mætir Króötum. Serbía og Portúgal leika um bronsverðlaun. Hjá körlum eigast við Serbía og Norður Makedónía í leiknum um bronsið.


Egyptar unnu stórsigur á lærisveinum Kiril Lazarov í landsliði Norður Makedóníu í undanúrslitum í dag, 31:20, í viðureign sem varð aldrei spennandi. Sex mörkum skakkaði á liðunum í hálfleik, 16:10.


Serbar veittu Spánverjum harða keppni í hinni viðureign undanúrslitanna enda Spánn ekki með sitt allra sterkasta lið. Í miklum markaleik vann spænska liðið með fjögurra marka mun, 42:38.


Grannþjóðirnar Portúgal og Spánn mættust í undanúrslitum í kvennaflokki. Portúgalska liðið var síst lakara og hafði eins marks forskot í hálfleik, 13:12. Spænsku leikmennirnir voru öflugri á endasprettinum og unnu, 26:24.


Króatar lögðu Serba með 11 marka mun í hinni viðureign undanúrslita í kvennaflokki, 31:20.


Leikið verður til úrslita í karla- og kvennaflokki á miðvikudaginn.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -