- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spenntur fyrir nýju hlutverki

Ragnar Jóhannsson og félagar í liðiSelfoss eru á sigurbraut. Mynd/Selfoss
- Auglýsing -

„Maður stendur á tímamótum. Ég og við erum bara mjög spennt fyrir að koma heim,“ sagði Ragnar Jóhannsson, handknattleiksmaður eftir að tilkynnt var í gær að hann gengi til liðs við uppeldisfélag sitt, Selfoss, eftir sex ár í atvinnumennsku í Þýskalandi með Hüttenberg og Bergischer HC.
Ragnar verður gjaldgengur með Selfoss-liðinu í Olísdeildinni um leið og keppni hefst á ný á nýju ári, nærri áratug eftir að hann yfirgaf heimahagana en Ragnar lék um árabil með FH áður en hann hélt til Þýskalands í janúar 2015.
Ragnar segir félaga sína á Selfossi hafa heyrt í sér hljóðið annað slagið á undanförnum misserum. „Nú náðum við saman. Ég er mjög ánægður með það,“ sagði Ragnar þar sem hann var að bera föggur sínar út í vörugám til heimferðar þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans.

Auk þess að pakka út í gám segist Ragnar eiga eftir að hnýta nokkra lausa enda í Þýskalandi áður en hann kemur til landsins ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonu, tveimur börnum og hundi 11. janúar. Eftir það tekur við nokkurra daga sóttkví áður en hann mætir galvaskur á fyrstu æfingu hjá Selfoss-liðinu.

Hugurinn leitaði heim

„Ég er í góðu formi. Alveg meiðslalaus. Ég á eftir að koma mér inn í leik Selfoss-liðsins en það kemur með tímanum,“ sagði Ragnar sem hefur því miður ekki fengið mörg tækifæri með Bergischer á leiktíðinni eftir að hafa gert það gott á síðasta vetri. Hann segist vera vonsvikinn yfir þeirri stöðu og það hafi átt sinn þátt í að hugurinn leitaði heim til Íslands.


„Ég hef ekki verið sáttur við minn hlut hjá liðinu í vetur. Nú er það að baki og við tekur hlutverk hjá Selfoss-liðinu sem ég er spenntur fyrir að axla. Mér finnst ég enn vera ungur og eiga nóg eftir af ferlinum verandi í góðu formi,“ sagði Ragnar sem stendur á þrítugu.

Lítið mál að losna

Ragnar átti hálft ár eftir af samningi sínum hjá Bergischer nú um áramótin. Hann sagði það ekki hafa verið átakamál að losna undan samningi og flytja heim. „Ég átti fund með forráðamönnum félagsins þar sem ég sagði þeim frá minni hlið mála og að ég vildi losna um áramótin. Það var tekið vel í þá ósk mína,“ sagði Ragnar Jóhannsson léttur í lund og ljóst að nóg verður að gera hjá netagerðum landsins næstu mánuði eftir að keppni á Íslandsmótinu hefst og þrumuskot Ragnars byrja að þenja út netmöskvana.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -