„Stelpurnar gerðu þetta vel“

Mynd/Eyjólfur Garðarsson

„Stelpurnar gerðu þetta vel. Þær voru frábærar í vörninni og markvarslan var sérstaklega góð. Þannig tókst okkur að ná góðri stöðu snemma í leiknum og vinna öruggan sigur,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, glaður í bragði eftir öruggan sigur Gróttu á ÍR, 26:19, í oddaleik í undanúrslitum umspils um sæti í Olísdeild kvenna á næsta keppnistímabili. Leikið var í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöld.

„Sem betur þá hleyptum við þessum leik aldrei í spennu. Fyrri leikirnir tveir voru svo sannarlega spennandi. Að mínu viti, án þess að hljóma hrokafullur, þá er ákveðinn munur á þessum tveimur liðum. Í fyrri leikjum höfum við til dæmis verið klaufar og farið illa með mörg góð tækifæri gegn Karen [Ösp Guðbjartsdóttur] sem hefur varið mjög vel vel í marki ÍR. Hún var með á milli 40 og 50% markvörslu í leikjunum. Að þessu sinni gekk okkur mikið betur að finna leiðir framhjá Karen,“ sagði Kári.

Sagan ekki með Gróttu

Framundan er úrslitarimma Gróttu og HK um keppnisrétt í Olísdeild kvenna á næstu leiktíð. Fyrsti leikurinn verður í Kórnum á laugardaginn. Kári segir söguna ekki endilega vera á bandi Gróttu þegar kemur að umspilinu. Aðeins einu sinni hafi lið úr Grill 66-deildinni tekist að vinna keppnisrétt af Olísdeildarliði í gegnum umspilið.

Búum okkur vel undir leikina

„Einu sinni hefur það gerst að lið úr Olísdeildinni hefur fallið úr deildinni eftir umspilið. Það var því miður mitt lið, Grótta, og einmitt á móti HK. Fyrirfram verðum við litla liðið í einvíginu. Það er okkar verkefni að búa okkur eins vel hægt er undir leikina og ná úrslitum. En það alveg ljóst leikirnir verða afar erfiðir,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, í samtali við handbolta.is í Hertzhöllinni í gærkvöld.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -