- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sterkara en alls ekki ósigrandi – ekkert hik er á Eyjakonum

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV og leikmenn liðsins gátu fagnað í leikslok. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Þetta er bara hörkulið sem vann keppnina á síðasta vori og hefur innanborðs fjóra spænskar landsliðskonur og tvær sem hafa verið í hóp hjá brasilíska landsliðinu, þar af hefur önnur leikið nokkra landsleiki,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV, í samtali við handbolta.is um væntanlega leiki ÍBV gegn Costa del Sol Málaga í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Fyrri leikurinn verður ytra í dag og hefst kl. 17.


ÍBV-liðið kom með fríðu föruneyti til Málaga um miðnætti í gærkvöld. Stefnan var tekin á létta æfingu undir hádegið í dag til að ná úr sér ferðastrengjunum. Allir leikmenn liðsins eru klárir í slaginn fyrir utan þá sem eru fjarverandi vegna langvarandi meiðsla eins og Birna Berg Haraldsdóttir. Hún er engu að síður með hópnum ytra til að miðla af reynslu sinni.

Leggjum allt í sölurnar

Fyrri leikurinn verður ytra í dag og hefst klukkan 17 og síðari verður á sama stað og á sama tíma á morgun, sunnudag. „Leikirnir verða mikil áskorun fyrir okkur og nokkuð sem maður vonaðist eftir að fá út úr þessari keppni, þ.e. að við berum okkur saman við alvörulið í Evrópu,“ sagði Sigurður og bætir við að ÍBV-liðið ætli að leggja allt í sölurnar í leikjunum tveimur.

Langar að ná lengra

„Úr því að við erum komin svona langt í keppninni þá munum við gera hvað sem við getum til þess að ná árangri. Okkur langar lengra. Við erum ekki aðeins með til þess að öðlast reynslu þegar svona langt er komið í keppninni.“

ÍBV hefur fram til þessa rutt úr vegi í keppninni tveimur grískum liðum og einu tékknesku.

Sterkari en fyrir áramót

Sigurður segir að ÍBV-liðið sé um þessar mundir öflugra en það var fyrir áramótin. Það hafi sýnt sig á undanförnum vikum. ÍBV hefur unnið allar sjö viðureignir sínar á þessu ári, fimm í Olísdeildinni og tvær í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar gegn tékkneska liðinu Sokol Pisek.

„Við æfðum rosalega vel í desember og lyftum mikið. Það er einfaldlega mikið meiri kraftur í liðinu núna og það er til alls líklegt. Tímabilið fyrir áramót var mjög erfitt, utan vallar sem innan en við höfum unnið okkur vel út úr þeirri stöðu,“ sagði Sigurður ákveðinn að vanda.


„Við ætlum að gera allt til þess að vinna Málagaliðið. Þótt það sér sterkt þá er það alls ekki besta lið í heiminum. Það er sterkara en við á pappírunum en síður en svo ósigrandi,“ segir Sigurður sem metur Málagaliðið lítið eitt sterkara en Elche frá Alicante sem vann KA/Þór naumlega á fyrri stigum Evrópubikarkeppninnar í nóvember. Einu stigi munar á Costa del Sol Málaga og Elche í fjórða og fimmta sæti spænsku 1. deildarinnar um þessar mundir.

Líður vel að vera minnipokaliðið

„Við vitum að við erum minna liðið í leikjunum tveimur en okkur Eyjamönnum líður oft vel að vera minnipokaliðið. Við munum fara í þetta verkefni til þess að vinna. Ef í ljós kemur að um of stóran bíta verður að ræða þá reynum við að bara að fá sem mest út úr leikjunum,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, hvergi banginn frekar en fyrri daginn þegar handbolta.is tók á honum púlsinn.


Leikurinn á Málaga hefst klukkan 17 í dag og verður fylgst með honum eftir mætti á handbolta.is.

Eins verður hægt að fylgjast með útsendingu á youtube á hlekknum hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -