- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sterkt að fá stigin

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals gefur skipanir. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Sé tekið mið af spilamennsku okkar í leiknum þá var sterkt að ná í tvö stig. Mér fannst leikur okkar ekki vera viðunandi,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir nauman sigur á Haukum 28:26, í Olísdeild kvenna í handknattleik í Origohöllinni í gærkvöld. Valur endurheimti annað sæti deildarinnar með sigrinum, er stigi á eftir Fram og stigi á undan KA/Þór sem er í þriðja sæti.


„Varnarleikurinn batnaði í síðari hálfleik. Þá tókst að daga út flæðinu í sóknarleik Hauka. Um leið þá fengum við fleiri hraðaupphlaup en því miður þá vorum við „slútta“ illa, ekki síst í fyrri hálfleik.


Við náðum í stigin tvö og það er ákveðið styrkleikamerki að vinna þótt maður nái ekki að leika eins og best er á kosið,“ sagði Ágúst Þór sem kom beint úr fermingaveislu hjá syni sínum og í viðureignina við Hauka.

Veltum okkur ekkert upp úr stöðunni

Ágúst Þór segir að hvorki hann né leikmenn liðsins velti sér upp úr stöðunni í deildinni dag frá degi. Einbeitingin fer í að reyna að bæta leik liðsins jafnt og þétt. „Við vorum í vandræðum og höfum unnið úr þeirri stöðu jafnt og þétt og gert það vel. Síðan verður að koma í ljós þegar upp verður staðið hvar við lendum í stöðutöflunni.“

Er á tæpasta vaði


Ágúst Þór segir að auk Söru Sifjar Helgadóttur markvarðar þá glímir Hildigunnur Einarsdóttir við meiðsli. „Við höfum verið að finna fimm mínútur hér og fimm mínútur þar fyrir Hildigunni sem hefur verið meidd í öxl síðan í bikarúrslitaleiknum. Hún er á tæpasta vaði.


Mariam er að koma til baka eftir meiðsli og eins hefur Elín Rósa Magnúsdóttir komið afar sterk inn í hópinn eftir meiðsli og leikið vel. Við vonum að breiddin sé að aukast,“ sagði Ágúst Þór sem á fyrir höndum úrslitaleik við Fram um efsta sæti Olísdeildarinnar á næsta laugardag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -