- Auglýsing -
- Auglýsing -

Staðfest smit hjá liði Guðmundar og Arnars

Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari MT Melsungen í Þýskalandi. Mynd/Melsungen
- Auglýsing -

Æfingar voru felldar niður í dag hjá þýska handknattleiksliðinu MT Melsungen sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Arnar Freyr Arnarsson leikur með. Ástæðan er að sterkur grunur vaknaði um kórónuveirusmit hjá einum leikmanni liðsins. Samkvæmt heimildum handbolti.is er sá grunur á rökum reistur. Félagið hefur hinsvegar ekki tilkynnt ennþá hvort svo sé.

Uppfært kl. 20.20: Melsungen hefur staðfest á heimasíðu sinni að Finn Lemke hafi greinst smitaður af kórónuveirunni.


Sé grunurinn á rökum reistur og leikmaður Melsungen er smitaður þarf allt liðið ásamt þjálfara að fara í hálfsmánaðar sóttkví. Við það verður ekki aðeins röskun á æfingum heldur einnig á leikjadagskrá liðsins en framundan er mjög þétt leikjadagskrá fram að áramótum og vandséð að þeir fari allir fram fyrir árslok.


Tveir leikmenn Melsungen veiktust af veirunni fyrir keppnistímabilið, annar þeirra er landsliðsmarkvörðurinn Silvio Heinevetter. Fleiri þýskir landsliðsmenn eru í herbúðum Melsungen.


Melsungen-liðið ferðaðist saman til Flensburg í fyrradag í leik sem var svo felldur niður þegar á hólminn var komið vegna gruns um smit hjá landsliðsmanni Flensburg. Melsungen-liðið sneri því til síns heima í gær. Af þessum sökum hefur verið talsvert samneyti milli leikmanna undanfarna daga og leiða má líkum að fleiri kunni að vera útsettir.


Svipað var upp á teningnum hjá Leipzig-liðinu. Þar eru leikmenn enn í sóttkví eftir að nokkrir greindust smitaðir auk þjálfarans. Hann er reyndar laus úr vistinni þar sem hann greindist nokkrum dögum á undan leikmönnum.

Smitum fjölgar – leikjum fækkar


Alltaf fjölgar í hópi þýsku landsliðsmannanna sem greinast með veiruna eftir landsleikjatörnina í síðustu viku og á sunnudaginn. Ungstirnið Juri Knorr er nýjast fórnarlambið úr hópi landsliðsmanna. Af þessum sökum hefur viðureign liðs hans, GWD Minden, og Bergischer, sem Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhannsson leika með, og átti að fara fram í kvöld, verið frestað.


Aðeins einn leikur stendur eftir af fjórum sem upphaflega voru á dagskrá þýsku 1. deildarinnar í kvöld. Það er viðureign Wetzlar og Coburg.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -